Umræðan

Eru hlut­a­bréf verð­tryggð?

Helga Viðarsdóttir og Jökull Jóhannsson skrifa

Mikið hefur verið fjallað um verðbólgu og vaxtahækkanir að undanförnu og margir fjárfestar að huga að áhrifum verðbólgu á sínar fjárfestingar.

Verðbólga hefur mjög mismunandi áhrif á virði hlutabréfa. Þó hlutabréf séu ekki beintengd við vísitölu neysluverðs líkt og verðtryggð skuldabréf þá hefur hófleg verðbólga sem slík ekki bein neikvæð áhrif á virði hlutabréfa.

Fyrirtæki upp til hópa hækka verð á sinni vöru og þjónustu og hefur virði hlutabréfa aukist langt umfram verðbólgu sögulega. Fyrir þau fyrirtæki sem eiga auðvelt með að hækka verðlag án þess að það komi verulega niður á eftirspurn getur hófleg verðbólga í raun verið jákvæð.

Nú var það kynnt að tekjur þeirra fyrirtækja sem eru hluti af vísitölunni S&P 500 hafi hækkaði um 11 prósent fyrstu 6 mánuði þessa árs, nokkuð umfram verðbólgu. Á sama tíma hefur hlutabréfaverð lækkað.

Hlutabréfaverð tekur mið af væntingum fjárfesta, ekki einungis rekstri fyrirtækisins sem á við. Til þess að takast á við verðbólgu eru stýrivextir hækkaðir og hafa fjárfestar búist við frekari stýrivaxtahækkunum.

Ólíkt verðbólgu hafa hækkandi vextir neikvæð áhrif á virði hlutabréfa.

Ólíkt verðbólgu hafa hækkandi vextir neikvæð áhrif á virði hlutabréfa. Er það meðal annars vegna þess að því hærri vextir sem bjóðast því meiri kröfu um ávöxtun gera fjárfestar. Hækkandi vextir auka einnig fjármagnskostnað fyrirtækja.

Hækkandi fjármagnskostnaður dregur úr vilja fyrirtækja til að fjárfesta í vexti. Er því mikilvægt að verðbólga sé hófleg svo að hagstætt sé fyrir fyrirtæki að fjárfesta til framtíðar.

Hækkandi vextir hafa þó einnig þau áhrif að fjármagnskostnaður neytenda eykst og má segja að tilgangur vaxtahækkana sé að draga úr eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Minnkandi eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur síðan neikvæð áhrif á hagkerfið í heild og hlutabréfaverð.

Áhrif vaxtahækkana og verðbólgu á virði fyrirtækja er þó mjög mismunandi.

Verðbólga kemur fyrirtækjum sem gera ráð fyrir miklum hagnaði í framtíðinni verr þar sem að sá hagnaður verður minna virði ef verðbólga er há.

Fyrirtæki sem gera ráð fyrir örum vexti, svokölluð vaxtarfyrirtæki, hafa á þessu ári lækkað hvað mest. Kemur þar ýmislegt til. Verðbólga kemur fyrirtækjum sem gera ráð fyrir miklum hagnaði í framtíðinni verr þar sem að sá hagnaður verður minna virði ef verðbólga er há. Annað mál er að slík fyrirtæki þurfa að fjármagna sinn vöxt, hvort sem það er aukinn markaðskostnaður, fjárfestingar í tækjum eða húsnæði. Hækkandi fjármagnskostnaður kemur því meira niður á slíkum fyrirtækjum en öðrum.

Fyrirtæki sem byggja virði sitt frekar á núverandi rekstri en áætlunum um öran vöxt, svokölluð virðisfyrritæki hafa lækkað hvað minnst á þessu ári. Er það meðal annars vegna þess að mörg þeirra þurfa ekki að fjármagna kostnaðarsaman vöxt og því áhrif vaxtahækkana minni. Sögulega hafa bankar, fyrirtæki sem framleiða nauðsynjavöru, til dæmis matvöru og veitur hækkað hvað mest þegar verðbólga er há, eru þessi fyrirtæki almennt talin virðisfyrirtæki.

Höfundar stýra Spaki Invest, sjóð sem fjárfestir eingöngu í hlutabréfum virðisfyrirtækja, með áherslu á banka, iðnað og matvælaframleiðslu. Sjóðurinn hóf rekstur sinn í byrjun árs 2021 og hefur fjárfest miðað við þær forsendur að verðbólga og stýrivextir færi hækkandi árin 2021 og 2022.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×