Körfubolti

Leikmaður Indiana Pacers segir Lakers ætti að ná í sig og liðsfélaga sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myles Turner treður boltanum í körfuna í leik með Indiana Pacers.
Myles Turner treður boltanum í körfuna í leik með Indiana Pacers. AP/Nick Wass

Myles Turner, miðherji Indiana Pacers, vill að Los Angeles Lakers skoði betur að sækja sig til Indiana.

Los Angeles Lakers og Indiana Pacers ræddu möguleg leikmannaskipti í sumar þar sem Indiana átti að fá Russell Westbrook og valrétti í skiptum fyrir Myles Turner og Buddy Hield.

Þær viðræður leystust upp og ekkert varð að slíkum skiptum. Westbrook er enn að spila hjá Lakers en kemur nú inn af bekknum.

„Ef ég væri Lakers þá myndi ég skoða þetta betur miðað við þá stöðu sem þeir eru í,“ sagði Myles Turner í viðtali í hlaðvarpsþættinum „The Woj Pod“ á ESPN.

„Ég veit að ég get komið með góða hluti inn í liðið, leiðtogahæfni, varin skot, þriggja stiga skot og bara hæfileika mína að skila góðum hlutum inn á vellinum,“ sagði Turner.

„Þeir ættu að skoða þetta mjög vel en hvað varðar þessa ákvörðun þá fæ ég borgað fyrir að taka skot en ekki að taka slíkar ákvarðanir,“ sagði Turner.

Lakers vill helst ekki missa valrétti sína 2027 og 2029 enda gæti verið erfitt án þeirra að sækja næga hjálp fyrir stórstjörnurnar LeBron James og Anthony Davis.

Lakers tapaði fimm fyrstu leikjum sínum en vann loksins í síðasta leik. Þá voru öll hin lið NBA búin að vinna. Indiana Pacers hefur unnið þrjá af sjö leikjum sínum.

Turner er 26 ára gamall miðherji sem er að spila sitt áttunda tímabil með Indiana. Hann er með 12,7 stig, 6,7 fráköst og 2,3 varin skot að meðaltali á NBA-ferlinum þar sem hann hefur nýtt 35 prósent þriggja stiga skota sinna.

Buddy Hield er 29 ára gamall skotbakvörður og ein besta þriggja stiga skytta deildarinnar. Hann hefur skoraði 15,9 stig í leik á NBA-ferlinu og er með rétt tæplega fjörutíu prósent þriggja stiga nýtingu.

Á þessu tímabili er Hield með 17,1 stig í leik og 44,6 prósent þriggja stiga nýtingu. Turner er með 16,0 stig, 8,0 fráköst og 4,5 varin skot í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×