Á íþróttavef mbl.is er greint frá því að Jón Axel sé að semja við ítalska liðið Pesaro „á tímabundnum samningi.“ Jasmin Repesa, þjálfari Pesaro, var þjálfari Bologna þegar Jón Axel spilaði þar á síðustu leiktíð.
Pesaro er sem stendur í 5. sæti Lega A, úrvalsdeildarinnar í körfubolta þar í landi, með þrjá sigra að loknum fimm leikjum.
Hinn 26 ára gamli Jón Axel hefur spilað með Fraport Skyliners og Crailsheim Merlins í Þýskalandi sem og Bologna á Ítalíu á ferlinum. Þá lék hann með Phoenix Suns í sumardeild NBA á síðasta ári.
Jón Axel lék aðeins tvo leiki með Grindavík í Subway deild karla á leiktíðinni. Var hann með 18 stig að meðaltali í þeim ásamt því að gefa 7,5 stoðsendingar og taka sex fráköst.