Innherji

Selur hlut sinn í Orkufélaginu fyrir tæplega þrjá milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Orkufélagið er eignarhaldsfélag utan um P/F Magn sem starfar í Færeyjum.
Orkufélagið er eignarhaldsfélag utan um P/F Magn sem starfar í Færeyjum.

SKEL hefur samþykkt kauptilboð frá færeysku félagi í allan 48,3 prósenta hlut íslenska fjárfestingafélagsins í S/P Orkufélaginu fyrir jafnvirði um 2,8 milljarða króna. Orkufélagið er eignarhaldsfélag utan um P/F Magn sem starfar í Færeyjum.

Kauptilboðið er gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, afkomu ársins og samþykki eftirlitsaðila, að því er fram kemur í tilkynningu SKEL, sem áður hét Skeljungur, til Kauphallarinnar rétt í þessu.

Kaupverðið hlutafjár nemur 146 milljónum danskra króna en áætlaður söluhagnaður SKEL vegna viðskiptanna er um 124 milljónir íslenskra króna. Greitt verður fyrir hlutinn með reiðufé.

Samhliða sölunni hefur hins vegar einnig verið gert skilyrt samkomulag þess efnis að íslenskir fjárfestar í Orkufélaginu stofni nýtt eignarhaldsfélag sem mun eiga 11,9 prósenta hlut í færeyska félaginu. SKEL mun eiga 39 prósenta hlut í því eignarhaldsfélagi og greiðir fyrir hlutinn 14 milljónir danskra króna. Samkvæmt núgildandi hluthafasamningi mun það félag íslensku fjárfestanna eiga rétt á einum stjórnarmanni.

Í árslok 2021 gekk SKEL (sem þá hét Skeljungur) frá sölu á P/F Magn til Orkufélagsins og nam heildarkaupverðið í þeim viðskiptum 12,2 milljarðar króna. SKEL endurfjárfesti hins vegar þá 2,8 milljörðum króna af söluandvirðinu í Orkufélaginu og eignaðist við það rúmlega 48 prósent. Magn rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar ásamt því að vera leiðandi í sölu eldsneytis til húshitunar. Þá hefur Orkufélagið hefur staðið að uppbyggingu á 18mw vindmyllugarði er áætlað að framkvæmdum ljúki síðar á árinu.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL fjárfestingafélags.

Aðrir íslenskir fjárfestar sem hafa komið að eignarhaldi á Orkufélaginu eru eigendur útgerðarinnar Eskju og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi verktakafyrirtækisins ÞG Verks.

Hlutabréfaverð SKEL, sem rekur dótturfélög undir merkjum Skeljungs, Orkunnar og Gallon, hefur hækkað um 22 prósent frá áramótum en velta með bréf félagsins á undanförnum mánuðum hefur verið hverfandi. Markaðsvirði SKEL stendur í 35 milljörðum króna.

Verulegar breytingar hafa einnig orðið á starfsemi SKEL að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Samhliða því var nafni þess breytt úr Skeljungi í SKEL fjárfestingafélag. Þá hafa stjórnendur hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.

Í apríl á þessu ári var tilkynnt um það að SKEL hefði ráðið Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra fjárfestingafélagsins og hóf hann störf síðastliðinn júlí. Þá var Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, fenginn til að taka við sem fjármálastjóri SKEL.

Undir lok aprílmánaðar var síðan tilkynnt um það í flöggun til Kauphallarinnar að Skel væri komið með um 7,3 prósenta hlut í VÍS og væri eftir þau kaup fjórði stærsti hluthafi tryggingafélagsins. Þá er SKEL sömuleiðis stærsti hluthafinn í fasteignafélaginu Kaldalón með um 14 prósenta hlut.

Í fjárfestakynningu stjórnenda SKEL eftir uppgjör annars fjórðungs í ágúst kom meðal annars fram að þrátt fyrir skammtímasveiflur í hlutabréfaverði VÍS þá breytir það ekki þeirri skoðun SKEL að „mikil verðmæti geti falist í rótgrónu vörumerki og fjölmennum viðskiptavinagrunni félagsins í þeim breytingum sem framundan eru í fjármála- og tryggingastarfsemi næstu árin.“

Þá hefur SKEL einnig ákveðið að haga rekstri Orkunnar og Skeljungs með þeim hætti að þau verði skráningarhæf á næstu þremur árum. „Mikil tækifæri eru til ytri vaxtar, bæði með minni og stærri einingum sem falla vel að starfsemi, áherslum og viðskiptavinagrunni félaganna,“ sagði í fjárfestakynningu SKEL eftir síðasta uppgjör.

SKEL hagnaðist um 1.597 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 292 milljóna króna hagnað á sama fjórðungi í fyrra. Þar af nam söluhagnaður fasteigna 1.392 milljónum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×