Körfubolti

Hafði ekki gerst í NBA-deildinni síðan 1983

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ja Morant var flottur með liði Memphis Grizzlies í nótt.
Ja Morant var flottur með liði Memphis Grizzlies í nótt. AP/Brandon Dill

Memphis Grizzlies og Brooklyn Nets buðu upp á sögulega frammistöðu stjörnuleikmanna liðanna í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Grizzlies vann leikinn á endanum með tíu stiga mun, 134-124, og hefur því unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.

Við höfum samt ekki séð svona leik í NBA-deildinni í næstum því fjörutíu ár eða síðan 1983.

Tveir leikmenn úr hvoru liði skoruðu nefnilega 35 stig eða meira í leiknum.

Ja Morant og Desmond Bane voru báðir með 38 stig fyrir lið Memphis Grizzlies en þeir voru einnig báðir með 7 stoðsendingar hvor. Þokkalegasta bakvarðardúó þar á ferðinni.

Bane hafði ekki hitt vel í byrjun tímabilsins en setti niður 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þessi 76 stig sem þeir skoruðu saman er það mesta sem liðsfélagar hafa skorað í sögu Memphis Grizzlies.

Kevin Durant og Kyrie Irving voru síðan báðir með 37 stig fyrir Brooklyn Nets liðið. Durant komst upp fyrir Alex English og inn á topp tuttugu yfir stigahæstu leikmenn NBA-sögunnar.

Durant talaði um það eftir leikinn að þriggja stiga skot heimamanna hefðu skilað þeim sigrinum. Morant og Bane voru saman með tólf af sextán þristum Grizzlies liðsins en á sama tíma hittu leikmenn Nets aðeins úr 8 af 29 langskotum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×