Handbolti

50 sjálfboðaliðar muni koma að hverjum leik í umfangsmiklu verkefni Valsara

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gísli Gunnlaugsson, formaður handknattleiksdeildar Vals.
Gísli Gunnlaugsson, formaður handknattleiksdeildar Vals. Stöð 2 Sport

Gísli Gunnlaugsson, formaður handknattleiksdeildar Vals, segir mikla vinnu hafa farið í undirbúning fyrir fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem fer fram annað kvöld. Valur mætir þá Ferencváros frá Ungverjalandi.

„Það er mikil tilhlökkun og búið að vera mikið að gera, eins og þú sérð er salurinn að verða fínn. Það eru mörg handtök eftir en líka mörg búin,“ segir Gísli sem segir undirbúning hafa farið af stað fyrir um tveimur mánuðum síðan.

„Það eru einhverjir tveir mánuðir síðan að við byrjuðum en meginþunginn hefur verið síðusta hálfa mánuðinn. Það eru 50 sjálfboðaliðar sem munu koma að hverjum leik,“

Gísli segir þá kröfurnar frá Handknattleikssambandi Evrópu vera töluvert strangari en þær sem Valsmenn eru vanir úr Áskorendabikar Evrópu, hvar þeir hafa keppt undanfarin ár.

„Þetta er töluvert meira og dýrara dæmi en að fara eins og í Áskorandabikarinn, hérna þarftu bara að fara eftir ákveðnum reglum og þetta er flóknara,“ segir Gísli.

Klippa: Gísli um undirbúning Valsmanna

Kostnaður við þátttökuna ef því töluverður og umtalsvert meiri en í Áskorandabikar Evrópu. Það hefur sitt að segja að fimm leikir verða leiknir heima og heiman, í það minnsta, en Gísli segir strákana í liðinu hafa sinnt fjáröflun vel og þá koma fjölmargir kostendur að þátttöku Vals.

Evrópuævintýrið hefst að Hlíðarenda annað kvöld og segir Gísli Valsara vera bjartsýna.

„Eigum við ekki alltaf að vera það? Snorri [Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals] segir það, við trúum honum,“ segir Gísli.

Leikur Vals og Ferencváros er klukkan 18:45 á morgun og er miðasala á tix.is. Allir leikir Vals í Evrópudeildinni eru sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Bein útsending frá leiknum hefst á Stöð 2 Sport klukkan 18:15 annað kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.