Umfjöllun og viðtöl: Valur 35-25 ÍR | Stórsigur Vals á Hlíðarenda

Jón Már Ferro skrifar
Valsmaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson.
Valsmaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson. Vísir/Diego

Valur vann ÍR 35–25 í Origo-höllinni í kvöld. Leikurinn var í 7. umferð Olis-deildar karla.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik.

ÍR-ingar skoruðu fyrsta markið en fljótlega tóku Valsmenn forystuna en komust þó aldrei meira en tveimur mörkum yfir.

Það voru svo gestirnir sem komust yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og leiddu með einu marki þegar gengið var til búningsklefa, 13 – 14. Að miklu leiti var það Ólafi Rafn Gíslasyni markverði þeirra að þakka, en hann varði 11 skot í fyrri hálfleik.

Fyrri hluti seinni hálfleiks varð gestunum að falli í kvöld og lagði grunnin að sigri Valsara.

Þegar 10 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik voru Valsmenn komnir þremur mörkum yfir og allt útlit fyrir að þeir væru að fara sigla sigrinum í hús.

Ekki batnaði útlitið fyrir ÍR-inga því að á 45. mínútu fékk Bjarki Steinn Þórisson rautt spjald þegar hann sló Róbert Aron Hostert í andlitið. Þá var staðan orðin 25 – 19 og útlitið ekki bjart fyrir Breiðhyltinga.

Eftir það juku heimamenn forystu sína hægt og rólega og unnu að lokum öruggan 10 marka sigur.

Af hverju vann Valur?

Á fyrri hluti seinni hálfleiks gengu heimamenn á lagið og kafsigldu ÍR-ingum. Motoki Sakai kom í markið í stað Björgvins Páls sem var ekki að finna sig í dag. Sakai varði 10 skot eftir að hann kom inn á í hálfleik, á meðan Björgvin varði einungis þrjú.

Hverjir stóðu upp úr?

Erfitt að horfa framhjá Sakai í marki Vals. Hann snéri leiknum að einhverju leiti leiknum Valsmönnum í vil eftir að markvarsla Vals var nánast engin í fyrri hálfleik.

Magnús Óli Magnússon skoraði 9 mörk úr 11 skotum og fór fyrir sínu liði. Sérstaklega sóknarlega.

Arnar Freyr Guðmundsson, leikmaður ÍR, skoraði 8 mörk og var sprækur í kvöld.

Þrátt fyrir 10 marka tap var Ólafur Rafn, markmaður gestanna flottur. Í fyrri hálfleik varði hann 11 skot en það fjaraði aðeins undan honum í þeim seinni því hann varði einungis fjögur. Það var of lítið fyrir ÍR-inga sem hefðu þurft sérstaklega á góðri markvörslu að halda á móti jafn sterku liði og Val.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingum gekk illa að halda Valsmönnum í skefjum í seinni hálfleik líkt og þeir gerðu í þeim fyrri. Sóknarlega klúðruðu þeir líka fleiri fínum færum og voru klaufar sóknarlega í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Bæði lið fá Selfoss í heimsókn í næsta leik í deildinni en á þriðjudaginn 25. október fá Valsmenn, ungverska liðið, Ferencvaros í heimsókn í riðlakeppni Evrópukeppni EHF.

Valur þann 7. nóvember klukkan 19:30 og ÍR 30. október, líka klukkan 19:30

„Þetta var erfitt framan af“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var eðlilega sáttur í leikslok.

„Auðvitað var þetta öruggt í seinni hálfleik en við þurftum svo sannarlega að hafa fyrir því. Þetta var erfitt framan af og ÍR-ingarnir eru góðir, ferskir og sprækir. Mér finnst þeir bara vel skipulagðir og keyra vel. Spila leikinn svolítið bara á sínum forsendum sem ég ber mikla virðingu fyrir. Ég átti alveg von á erfiðum leik Óli (Ólafur Rafn Gíslason, markmaður ÍR) var að verja vel frá okkur hérna framan af leik. Við náðum aðeins að snúa því við og Sakai [markmaður Vals] kom í markið og varði. Svo snerist þetta hægt og rólega, við mjötluðum þetta hægt og rólega í seinni hálfleik. Tíu marka sigur er yfirleitt frekar þægilegur.“

Leikurinn breyttist í seinni hálfleik. Snorri nefndi nokkra þætti sem skiptu þar sköpum.

„Við fengum inn ferska menn. Bergur [Elí Rúnarsson], Vignir [Stefánsson] og Sakai komu allir vel inn í þetta. Við vorum að klikka svolítið í fyrri hálfleik, mikið að pirra okkur. ÍR-ingarnir voru klókir og agaðir, spiluðu langar sóknir og gerðu fá mistök. Við vorum bara lengi að ná frumkvæðinu. Vorum flatir sóknarlega í fyrri hálfleik. Góður seinni hálfleikur, engin spurning.“

Hann var ekki sáttur með uppstilltan sóknarleik sinna manna í fyrri hálfleik.

„Svona á köflum, mér fannst við byrja þetta ágætlega. Ég rúlla náttúrulega aðeins liðinu. Mér fannst keyrslan fín, skoruðum mikið úr hröðum sóknum. Uppstilltur sóknarleikur var ekki alveg eins og ég vil hafa hann. Sérstaklega um miðjan fyrri hálfleik.“

Snorri var sáttur með Sakai og fannst hann skulda góða frammistöðu frá síðasta leik.

„Lykilatriði og ekki lykilatriði. Sakai kom bara vel inn, hann skuldaði frá síðasta leik fannst mér. Björgvin er besti markmaður okkar Íslendinga, en það þýðir ekki að hann sé alltaf góður.“

„Útfærðum fyrri hálfleikinn vel“

Bjarni á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Vilhelm

Bjarni Fritz, þjálfari ÍR, telur að fyrri hluti seinni hálfleiks hafi orðið þeim að falli í dag.

„Við vorum náttúrulega að spila við sterkt lið en útfærðum fyrri hálfleikinn vel. Svo strax í seinni hálfleik lendum við einum færri og tveimur færri. Við vorum klaufar á þeim kafla, fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks erum við meira og minna einum færri og erum ekki að gera það nægilega vel.“

Eðlilega var Bjarni ánægður með fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum, enda voru þeir einu marki yfir.

„Í rauninni var ég mjög ánægður með vörnina. Óli [Ólafur Rafn Gíslason, markmaður ÍR] var að verja vel. Ég hefði viljað að seinni bylgjan og keyrslan væru aðeins betri. Við vorum svaka duglegir að teygja á vörninni, halda góðu tempói og spila agað og ráðast á þeirra veikleika varnarlega fannst mér.“

Bjarni fór nánar út í hvað varð til þess að þeir töpuðu leiknum.

„Ég var að segja það við strákana. Þeir skipta um markmann og hann ver náttúrulega frábærlega, við setjum hann í stöngina líka. Mér fannst það einn punktur, annar punkturinn var að við vorum bara klaufar. Þetta er mjög gott dómarapar og ég kvarta nú sjaldnast undan þeim. Mér fannst við klaufar í brotum og fá tvær mínútur fyrir það. Þú mátt ekki gera þau mistök á móti Val. Svo þegar fór að líða á vorum við með marga tæknifeila og fá hendina og menn voru ekki að taka eftir því. Þetta var svona á þeim kafla sem við vorum einum færri og menn ætluðu að vera eitthvað rosalega skynsamir en enduðum á að fara gera ekki neitt og tapa boltanum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira