Viðskipti innlent

Tuttugu prósenta hlutur í Út­varpi sögu til sölu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arnþrúður Karlsdóttir ætlar að selja fimmtungshlut í fjölmiðli sínum, Útvarpi sögu.
Arnþrúður Karlsdóttir ætlar að selja fimmtungshlut í fjölmiðli sínum, Útvarpi sögu.

Arnþrúður Karlsdóttir stefnir á að selja tuttugu prósenta hlut í fjölmiðli sínum, Útvarpi sögu. Hún segir það vera erfitt að sjá um fyrirtækið ein.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Þar segir að nú sé unnið að undirbúningi sölunnar. Með sölunni vill Arnþrúður meðal annars styrkja dreifikerfið á landsbyggðinni. Hún segir tækifærin sem fram undan eru vera mörg.

Í samtali við Morgunblaðið segist Arnþrúður hafa fundið fyrir áhuga meðal hugsanlegra kaupenda þó að söluferli sé ekki formlega farið af stað. Ýmsir hafa sýnt áhuga og fylgjast grannt með stöðu mála.

„Við erum að hugsa um að stækka umfang stöðvarinnar, auka dreifingu og ná um leið til enn fleiri hlustenda. Tækifærin eru því mjög mikil, að mínu mati. Í ljósi þessa tel ég rétt að fá fleiri að borðinu því betur sjá augu en auga, eins og sagt er. Það er því allt sem mælir með hlutasölu,“ segir Arnþrúður við Morgunblaðið.

Hún gat ekki gefið upp verðmæti hlutarins sem til stendur að selja. Markaðurinn sé sá sem ræður því hvert verðmætið verður að lokum.

„En í því ljósi er gott að hafa í huga að Útvarp saga er rótgróinn og vel þekktur fjölmiðill með langa og merkilega sögu að baki,“ segir Arnþrúður.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×