Viðskipti innlent

Hættur að versla við KS vegna stríðsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Vísir/Egill

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segist vera hættur að versla við veitingastaði og afþreyingastaði sem eru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga (KS). Ástæðan er sú að starfsmaður kaupfélagsins er heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi. Konsúllinn segist ekki sinna þeim störfum fyrir hönd KS.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, birti í dag færslu á Facebook þar sem hann sagðist vera hættur að versla við veitingastaði og afþreyingastaði í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Ástæðan fyrir því er sú að nafni hans, Ólafur Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, er heiðurskonsúll Rússlands í Skagafirði. 

Ólafur bendir á að KS hafi slitið samstarfi sínu við Arnar Grant þegar hann var sakaður um kynferðisbrot og því skilji hann ekki hvers vegna þeir vilji tengja sig við Rússland. 

„Eins rétt ákvörðun og það er hjá Kaupfélaginu að vilja ekki láta tengja sig við ásakanir um kynferðisbrot, þá botna ég ekkert í því að það skuli vilja láta tengja sig þetta hryðjuverkaríki sem Rússland er orðið,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu. 

Ólafur Ágúst segir störf hans sem konsúll ekkert tengjast starfi hans hjá KS. Hann hefur ekki endurskoðað stöðu sína sem konsúll enda sé ekkert að gera hjá embættinu á meðan stríðið er í gangi. Embættið liggi í raun niðri.

„Eins og staðan er, eins og ég hef áður útskýrt, þá er þetta þannig að maður er til taks fyrir þá sem lenda hér í einhverri neyð annars vega eða þá liðka fyrir einhverjum menningarlegum tengslum og öðru slíku. Það segir sig sjálft að þegar það er svona ástand þá er ekkert að gera í því,“ segir Ólafur Ágúst í samtali við fréttastofu. 


Tengdar fréttir

Kaupfélag Skagfirðinga og Árni Pétur kaupa Gleðipinna

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hafa náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum en félagið, sem veltir yfir þremur milljörðum króna, rekur meðal annars veitingastaðina American Style og Hamborgarafabrikkuna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×