Innherji

Skaginn 3X tapaði um 2,7 milljörðum eftir þungt rekstrarár

Hörður Ægisson skrifar
Skaginn3X er hátækniframleiðandi á kæli-, frysti- og vinnslukerfum fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað með áherslu á sjávarútveg.
Skaginn3X er hátækniframleiðandi á kæli-, frysti- og vinnslukerfum fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað með áherslu á sjávarútveg.

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X tapaði um 2.659 milljónum króna í fyrra sem var fyrsta rekstrarárið eftir að það komst í eigu þýska félagsins Baader. Þungur rekstur á árinu 2021 er einkum sagður skýrast af viðamikill endurskipulagningu, endurmati á skuldbindingum og kröfum frá fyrri tíð, afleiðingum af ólgu á mörkuðum í faraldrinum auk stríðsátaka Rússa en Skaginn 3X hefur átt talsverðra viðskiptahagsmuna að gæta þar í landi síðustu ár.

Mikið rekstrartap félagsins, sem þróar og framleiðir tækjabúnað í matvælaiðnaði með áherslu á sjávarútveg, kemur til viðbótar um 212 milljóna króna tapi á árinu 2020 en tekjur Skagans 3X minnkuðu þá um helming og voru 3,6 milljarðar. Samanlagt tap Skagans 3X á undanförnum tveimur árum er næstum jafn mikið og allur uppsafnaður hagnaður félagsins á árunum 2011 til 2019.

Skaginn 3X var áður að fullu í eigu Ingólfs Árnasonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, og eiginkonu hans, í gegnum félagið I.Á.-hönnun, en Baader kláraði fyrst kaup á um 60 prósenta hlut í fyrirtækinu í ársbyrjun 2021. Um ári síðar eignast þýska fyrirtækið eftirstandandi 40 prósenta hlut og er í dag eigandi að öllu hlutafé Skagans 3X.

Í kjölfar þess að Baader eignaðist Skagann 3X að fullu í febrúar á þessu ári var ráðist í endurskipulagningu í því skyni að efla samkeppnishæfni félagsins á alþjóðamörkuðum, samþætta enn frekar starfsemina við alþjóðlega starfsemi Baader samstæðunnar og einfalda rekstur, að því er segir í tilkynningu sem Skaginn 3X hefur sent frá sér.

„Baader hefur stutt fjárhagslega við Skagann 3X samstæðuna frá því að eignarhald fluttist til þeirra fyrr á þessu ári og mun gera það áfram með öflugum hætti líkt og kom skýrt fram á fundi æðstu stjórnenda Baader á dögunum með starfsfólki fyrirtækisins. Þá hefur verið endursamið um skuldbindingar og sterkur grunnur lagður að áframhaldandi starfsemi. Ytri aðstæður hafa verið fyrirtækjum á þessum markaði erfiðar síðustu misseri og við höfum ekki farið varhluta af því. Við höfum sem fyrr mikla trú á vörum okkar og lausnum, starfsfólki okkar og að við munum koma sterkari út úr þessari endurskipulagningu enda hefur verkefnastaðan þegar batnað,“ er haft eftir Jeff Davies, stjórnarformanni Skagans 3X.

Þannig tilkynnti félagið meðal annars um það fyrr í sumar að það hefði náð samningi við norsku útgerðina Blu­ewild um upp­setn­ingu vinnslu­línu um borð í há­tækni­tog­ara og nem­ur verðmæti samn­ings­ins rúm­lega millj­arði króna. Var sá samningur sagður marka tímamót fyrir Skagann 3X. Þá var Sigsteinn Grétarsson ráðinn forstjóri Skagans 3X og Baader á Íslandi í byrjun síðasta mánaðar. Sigsteinn var áður forstjóri Arctic Green Energy og þá starfaði hann í tuttugu ár hjá Marel, meðal annars sem aðstoðarforstjóri félagsins.

Var metið á um sjö milljarða í kaupunum

Þegar tilkynnt var um það í lok október 2020 að gengið hefði verið frá samningum um kaup Baader á meirihluta í Skaganum 3X þá var heildarvirði íslenska hátæknifyrirtækisins í viðskiptunum, samkvæmt heimildum Innherja, metið á um 43 milljónir evra, jafnvirði um 7 milljarða íslenskra króna á þáverandi gengi. Verðið var hins vegar árangurstengt og var endurmetið þegar Baader keypti eftirstandandi hlut Ingólfs í félaginu snemma á þessu ári. Endanlegt kaupverð tók þá talsverðum breytingum til lækkunar með hliðsjón af minnkandi tekjum og miklu tapi á rekstri félagsins.

Baader hefur stutt fjárhagslega við Skagann 3X samstæðuna frá því að eignarhald fluttist til þeirra fyrr á þessu ári og mun gera það áfram með öflugum hætti líkt og kom skýrt fram á fundi æðstu stjórnenda Baader á dögunum með starfsfólki fyrirtækisins.

Í kaupum Baader á Skaganum 3X fylgdu ekki með fasteignir félagsins en það er með starfsstöðvar bæði á Akranesi og á Ísafirði. Þær fasteignir heyra undir félagið Grenjar ehf., sem er í eigu Ingólfs, en samkvæmt síðasta birta ársreikningi nam bókfært virði fasteigna þss rúmlega 1,5 milljörðum króna í árslok 2020. Þar munaði langsamlegu mestu um þær fasteignir sem er utan um starfsemi Skagans 3X á Akranesi.

Rétt rúmlega einu ári eftir að fyrst var tilkynnt um kaup Baader á meirihluta hlutafjár í Skaganum 3X ákvað meirihluti stjórnar félagsins að segja Ingólfi upp störfum hjá fyrirtækinu.

Í fyrrnefndri tilkynningu sem Baader hefur sent frá sér kemur fram að Baader Ísland og Skaginn 3X muni í framtíðinni verða hryggjarstykkið í starfsemi samsteypunnar á Íslandi

„Starfsemi félaga í eigu Baader verður samþætt enn frekar með áherslu á framleiðslu véla og lausna fyrir fiskiðnaðinn. Baader samsteypan og starfsmenn hennar á Íslandi munu áfram bjóða viðskiptavinum sínum upp á framúrskarandi þjónustu og varahlutasölu í nánu samstarfi við íslenskan sjávarútveg og fiskeldi.“

Á síðustu árum hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging á rússneska fiskveiðiflotanum eftir að stjórnvöld þar í landi ákváðu að veita aukinn kvóta til útgerða sem smíða ný skip í Rússlandi. Þessi uppbygging hefur komið sér vel fyrir íslensk tæknifyrirtæki sem sérhæfa sig í sjávarútvegi, meðal annars Skagann 3X.

Nú hefur sú staða gjörbreyst eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar síðastliðnum og í kjölfarið þeim viðskiptaþvingunum sem Vesturveldin hafa beitt gagnvart Rússlandi.

Í viðtali við Markaðinn um mitt árið 2019 sagði Ingólfur Árnason, sem þá var forstjóri Skagans 3X, að félagið væri að selja mikið til Rússlands sem væri ört vaxandi markaður og um 40 prósent af sölu fyrirtækisins á þeim tíma væri tengd Rússlandi. Þá sagði Ingólfur að félagið væri einnig að skoða að opna starfsstöð í Rússlandi.

„Þar erum við ekki einungis að horfa til gjöfulla fiskimiða heldur er þar einnig að finna öflugan landbúnað sem við getum þjónustað.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×