Handbolti

„Hugsaði að núna myndi ég gera meira og gera meira“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Döhler skellti í lás í seinni hálfleik á Seltjarnarnesinu.
Phil Döhler skellti í lás í seinni hálfleik á Seltjarnarnesinu. vísir/diego

Phil Döhler varði átján skot í marki FH þegar liðið lagði Gróttu að velli í kvöld, 27-30. Þýski markvörðurinn lét sig ekki muna um að svara spurningum blaðamanns á íslensku í leikslok.

„Þegar ég varði ekki í fyrri hálfleik hugsaði ég að það kæmi nýr leikur í þeim seinni og núna myndi ég gera meira og gera meira,“ sagði Döhler.

FH fékk á sig sautján mörk í fyrri hálfleik en aðeins tíu í þeim seinni. Döhler varði vissulega meira þá en vörn FH-inga var líka betri.

„Það kom meira frumkvæði og við mættum þeim betur í seinni hálfleik,“ sagði Döhler.

Sigurinn á Seltjarnarnesinu í kvöld var sá fyrsti á tímabilinu hjá FH en liðið var í fallsæti Olís-deildarinnar fyrir leikinn.

„Gústi Birgis hefur verið meiddur og Einar Bragi [Aðalsteinsson] er nýr í miðri vörninni. Ég er líka byrjaður að æfa að krafti. Svo kemur þetta koll af kolli,“ sagði Döhler að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.