Innherji

Hlutabréfaverð Origo hækkar um 20 prósent eftir söluna á Tempo

Hörður Ægisson skrifar
Jón Björnsson, forstóri Origo, sagði að árangur Diversis eftir að það eignaðist fyrst meirihluta í Tempo fyrir fjórum árum hafi farið fram úr væntingum.
Jón Björnsson, forstóri Origo, sagði að árangur Diversis eftir að það eignaðist fyrst meirihluta í Tempo fyrir fjórum árum hafi farið fram úr væntingum.

Gengi hlutabréfa Origo hefur rokið upp í Kauphöllinni í morgun eftir að félagið tilkynnti seint í gærkvöldi um sölu á öllum 40 prósenta eignarhlut sínum í Tempo fyrir um 28 milljarða króna. Áætlaður söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er um 22 milljarðar.

Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um liðlega 20 prósent í fyrstu viðskiptum í rúmlega 180 milljóna króna veltu, og stendur í 84 krónum á hlut þegar þetta er skrifað. Markaðsvirði félagsins nemur því núna um 36,5 milljörðum króna.

Kaupandinn að hlut Origo í Tempo er bandaríski tæknifjárfestingarsjóðurinn Diversis Capital en söluandvirði hlutarins er næstum jafn mikið og markaðsvirði allrar Origo-samstæðunnar var við lokun markaða í Kauphöllinni í gær.

Heildarvirði Tempo í viðskiptunum er því samtals um 600 milljónir dala.

Salan á Tempo, sem er í grunninn íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað árið 2009 af starfsfólki TM Software, er sögð hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo þar sem lausafjárstaða styrkist og geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð. Stjórn og framkvæmdastjórn Origo munu vinna að tillögu um ráðstöfun söluandvirðisins sem verður kynnt hluthöfum í framhaldinu.

Jón Björnsson, forstóri Origo, sagði í tilkynningunni sem barst í gærkvöldi að árangur Diversis eftir að það eignaðist fyrst meirihluta í Tempo fyrir fjórum árum hafi farið fram úr væntingum. „Tempo stendur nú á ákveðnum krossgötum í sinni vegferð eftir kaup á tveimur nýjum félögum sem meira en tvöfaldar stærð félagsins,“ nefndi Jón, og vísaði þar til kaupa Tempo á félögunum Roadmunk og ALM Works á síðasta ársfjórðungi 2021.

Sameinuð velta félaganna þriggja var yfir 80 milljónum dala í fyrra en þar af nam velta Tempo um 45 milljónum dala.

Í uppgjöri Origo fyrir annan ársfjórðung á þessu ári kom fram að eftir sameiningu þeirra undir hatti Tempo hafi félagið skilað 25 prósenta tekjuvexti og heildartekjum upp á um 46 milljónir dala á fyrri árshelmingi. Leiðrétt EBITDA hlutfall félagsins var um 28 prósent á því tímabili.

Miðað við áætlaða ársveltu Tempo á þessu ári nemur heildarvirði félagsins í viðskiptunum, sé litið til tekjumargfaldara líkt og algengt er með slík vaxtarfyrirtæki, því nálægt sjö sinnum tekjur fyrirtækisins.

Ráðgjafar Origo í viðskiptunum voru LOGOS, AGC Partners og McGuireWoods. Þá var fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka ráðgjafi Diversis í kaupunum, samkvæmt upplýsingum Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×