Viðskipti innlent

Setja hús Lands­bankans á Akur­eyri á sölu

Atli Ísleifsson skrifar
Húsið var tekið í notkun árið 1954.
Húsið var tekið í notkun árið 1954. Landsbankinn

Landsbankinn mun setja hús sitt við Ráðhústorgið á Akureyri á sölu um helgina og stefnir bankinn að því að leigja hluta húsnæðisins fyrir bankastarfsemina af nýjum eigendum – en að starfsemin verði þá hýst í talsvert minna rými en nú er.

Frá þessu segir á heimasíðu bankans. Húsið stendur við Strandgötu 1 og setur mikinn svip á ásýnd Ráðhústorgsins.

„Húsið er um 2.300 fermetrar að stærð, kjallari, þrjár hæðir og ris. Ef til sölu kemur mun bankinn leigja húsnæði á fyrstu hæð og hluta af kjallara og annarri hæð. Útibúið verður því áfram í húsinu þar til annað verður ákveðið,“ segir á síðu bankans.

Landsbankinn hefur á síðustu árum sett hús sín á sölu, meðal annars á Selfossi, Ísafirði og í Reykjavík.

Rúmlega þrjátíu starfsmenn

Alls starfa nú rúmlega þrjátíu manns í útibúinu, aðallega við þjónustu í útibúinu og í Þjónustuveri en einnig hafa þrír starfsmenn Upplýsingatæknisviðs bankans starfsstöð í húsinu.

„Starfsfólk Þjónustuversins veitir viðskiptavinum um allt land þjónustu og í útibúinu eru reynslumiklir sérfræðingar í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja. Þar er líka aðgengi að sjálfsafgreiðslutækjum allan sólarhringinn. Þrátt fyrir umfangsmikla starfsemi hafa breytingar á bankaþjónustu gert það að verkum að húsakosturinn er óþarflega stór.

Ráðhústorgið á Akureyri.Vísir/Vilhelm

Tók til starfa á Akureyri árið 1902

Fyrstu tillöguuppdrætti að Landsbankahúsinu við Strandgötu gerði Guðjón Samúelsson en að honum látnum tók Bárður Ísleifsson við og gerði hann eftir það alla uppdrætti. Bárður gerði einnig teikningar að mögulegri viðbyggingu á austurhlið hússins sem ekki reis.

Þegar húsið var tekið í notkun árið 1954 voru fjárhirslur og geymsluhólf í kjallara. Á fyrstu hæð voru afgreiðslusalur og skrifstofur bankans. Á annarri og þriðju hæð voru skrifstofur Akureyrarkaupstaðar og fundarsalur bæjarstjórnar var í risinu og má því segja að á þessum árum hafi verið ráðhús við Ráðhústorg. Árið 1975 var viðbygging við húsið tekin í notkun og stækkaði afgreiðslusalurinn þá um helming.

Landsbanki Íslands tók til starfa á Akureyri árið 1902. Fyrstu tvö árin var bankinn til húsa í suðurhluta hússins að Hafnarstræti 2. Árið 1904 flutti bankinn í Hafnarstræti 107, við Ráðhústorg. Þar var bankinn til ársins 1931 þegar hann flutti yfir torgið á neðri hæð hússins Ráðhústorg 7a þar sem hann var til ársins 1954,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Landsbankahúsið á Ísafirði til sölu

Landsbankinn hefur sett hús sitt við Pólgötu 1 á Ísafirði á sölu. Bankinn seldi á dögunum hús sitt á Selfossi á 350 milljónir. Óskað er eftir tilboðum í eignina í höfuðstað Vestfjarða.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.