Viðskipti erlent

Verð­bólga á miklu flugi í Hollandi: „Ég fékk á­fall, þetta er hræði­legt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verðbólga er víða á siglingu, sérstaklega í Hollandi.
Verðbólga er víða á siglingu, sérstaklega í Hollandi. EPA-EFE/SEM VAN DER WAL

Verðbólga í Hollandi mælist nú 17,1 prósent og hefur ekki verið hærri þar í landi frá tímum Seinni heimstyrjaldarinnar á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Fjármálaráðherra landsins segir tölurnar vera áfall.

Líkt og víða um heim hefur verðbólga verið á flugi í Hollandi undanfari misseri. Um mitt síðasta ár mældist hún í kringum tvö prósent en hefur síðan þá vaxið ört.

„Ég fékk áfall, þetta er hræðilegt,“ hefur hollenski miðillinn NOS eftir Sigrid Kaag, fjármálaráðherra Hollands. Bendir hún jafn framt á að ríkisstjórn Hollands hafi nýverið samþykkt aðgerðapakka upp á sautján milljarða evra, seme ætlaður sé að dempa áhrif verðbólgunnar á íbúa Hollands.

Hækkandi orkuverð er aðaldrifkraftur verðbólgunnar í Hollandi, líkt og víðar í álfunni. Í Hollandi hefur orkuverð hækkað um 114 prósent á einu ári.

Hagstofa Hollands vinnur nú að því að uppfæra reikniformúluna sem notað er til til að reikna verðbólgu, ekki síst þá hluta hennar sem snúa að orkuverði, í von um að hægt verði að endurspegla betur raunorkuverð.

 Núverandi formúla byggir á verði nýrra orkusamninga sem metnir séu á grunnverði. Raunin sé hins vegar sú að mörg heimili greiði lægra verð en þetta svokallaða grunnverð. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.