Atvinnulíf

„Dæmi eru til um að læknir sé að skúra“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Irina S. Ogurtsova mannauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg finnst það mikil synd fyrir íslenskt samfélag að ekki sé verið að nýta mannauðinn sem kemur erlendis frá sem skyldi. Það sé ekki gott fyrir íslenskt samfélag þar sem vitað er að vöntun er á starfsmönnum. Dæmi eru um að læknir sé að skúra því fólk af erlendum uppruna fær oft ekki tækifæri til að starfa í samræmi við menntun og reynslu.
Irina S. Ogurtsova mannauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg finnst það mikil synd fyrir íslenskt samfélag að ekki sé verið að nýta mannauðinn sem kemur erlendis frá sem skyldi. Það sé ekki gott fyrir íslenskt samfélag þar sem vitað er að vöntun er á starfsmönnum. Dæmi eru um að læknir sé að skúra því fólk af erlendum uppruna fær oft ekki tækifæri til að starfa í samræmi við menntun og reynslu. Vísir/Vilhelm

„Mér finnst svo mikil synd að við séum ekki að nýta þann mannauð sem kemur til Íslands. Árið 2018 sáum við til dæmis á niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal starfsfólks velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að 48% starfsfólks af erlendum uppruna starfar í ófaglærðum störfum en er háskólamenntað ,“ segir Irina S. Ogurtsova mannauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg.

„Þessar tölur komu mér ekki á óvart en það var ákveðin staðfesting að sjá þær á blaði. Ég trúi ekki að það sé gott fyrir framtíð samfélagsins að hæft fólk geti ekki nýtt kraftana sína sem skyldi. Og ef fólk fær ekki tækifæri, gefst það upp og festist í þessum störfum. Dæmi eru til um að læknir sé að skúra.“

Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um mannauðsmál starfsfólks af erlendum uppruna en samkvæmt tölum Samtaka Atvinnulífsins mun íslenskur vinnumarkaður þurfa að flytja inn 12 þúsund starfsmenn á næstu fjórum árum.

Irina segir mikilvægt að til séu fleiri úrræði til að aðstoða fólk sem kemur til landsins við að finna rétt starf sem er í samræmi við menntun, reynslu og hæfileika.

„Dæmi um slík úrræði eru til hjá hinum Norðurlöndunum. Við getum ekki alltaf beðið eftir því að fólk lærir íslensku fullkomlega áður en það getur haft störf við hæfi. En þangað til ætlum við að berjast fyrir því að fólk fær að læra íslensku á vinnutíma.“

Leitin að fjármagninu

Irina hefur búið á Íslandi með hléum í sautján ár en hún er rússnesk frá rússneska minnihlutanum í Eistlandi. Irina er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.

Irina starfar sem ráðgjafi mannauðsmála fyrir starfsfólk af erlendum uppruna hjá Reykjavíkurborg en alls eru það um 9% af þeim ellefu þúsund starfsmönnum sem starfa hjá borginni.

Við viljum skapa fleiri tækifæri fyrir starfsfólk af erlendum uppruna þannig að fólk nái að vaxa og þróast í starfi. 

Við vorum lengi að leita af fjármagni til að standa betur að íslenskukennslu fyrir starfsfólk borgarinnar en ekkert gekk þar til við fengum upplýsingar um að hægt er að nýta stofnana styrki hjá fræðslusjóðum stéttarfélaga mun meira en við gerðum. 

Til að dekka kostnað fyrir félagsfólk stéttarfélaga sem eru ekki með stofnanastyrk, notum við styrki frá Rannís.“

Að sögn Irina hefur þetta fjármagn gert þeim kleift að skipuleggja miklu fleiri íslenskunámskeið á starfsstöðvum borgarinnar. Viðmið fyrir slík námskeið eru eftirfarandi: á vinnustaðnum/í nágrenninu, starfstengdur orðaforði, þátttakendum er skipt eftir þekkingarstigi í mismunandi hópa, tímasetningar og kennslufyrirkomulag aðlöguð starfsstaðnum og námskeið eru langtíma.

„Haustið 2021 hófu um 170 einstaklingar á starfsstöðvum borgarinnar að læra íslensku á hverri önn og það á vinnutíma. Flestir í þessum hópi eru enn að læra enda erum við stöðugt að vinna í því að bæta við fleiri námskeið á fleiri starfsstöðvum.“

Þótt Irina vilji að íslenskukennsla fari fram á vinnutíma fyrir alla, segist hún gera sér grein fyrir því að stundum er það ekki raunhæft miðað við stöðuna eins og hún er í dag.

„Til dæmis getur það verið erfitt á leikskólum því þar er alltaf mannekla. Sem er samt svo mikil synd því það er svo fjölmennur hópur starfsfólks af erlendum uppruna sem starfar á leikskólum.“

Irina leggur mikla áherslu á að fólk læri íslensku á vinnutíma en lengi vel var ekki hægt að bjóða upp á nægilega mörg námskeið vegna þess að fjármagn skorti. Eftir dágóða leit af fjármagni kom í ljós að ekki var verið að nýta fræðslusjóði stéttarfélagana sem skyldi en fjármagn frá þeim og styrkir frá Rannís eru nú að dekka kostnað við námskeið sem haldin eru víða um borgina.Vísir/Vilhelm

Að skilja mismunandi menningarheima

Irina hefur góða yfirsýn yfir ólíka hópa fólks af erlendum uppruna. Enda fjölbreyttur hópur sem starfar hjá undirstofnunum borgarinnar.

Hún segir fólk oft ekki átta sig á því hversu ólíkir hópar geta verið frá mismunandi þjóðum.

„En til þess að aðlagast íslensku samfélagi, þarf að tryggja upplýsingamiðlun til fólksins. Bæði í fræðsluskini en eins til að tryggja að fólk sé upplýst um réttindi og skyldur, uppbyggingu íslenskt samfélags og svo framvegis og helst á þeirra móðurmáli.“

Almennt snúast verkefni Irenu um að bæta vinnuumhverfi starfsfólks borgarinnar sem er af erlendum uppruna.

Hún segir stærstu áskorunina alltaf vera þá að miðla upplýsingum og fræðslu.

„Enda eru samskipti milli mismunandi menningarhópa oft erfið og á meðan við erum ekki nægilega vel upplýst um hvort annað, tölum við meira um Íslendinga annars vegar og útlendinga hins vegar.“

Þá segir Irina fólk oft ekki átta sig á því hversu ólíkur bakgrunnur fólks af erlendum uppruna er. Hún nefnir sem dæmi fólk frá Thailandi annars vegar og Filipseyjum hins vegar.

Fólk frá Filipseyjum talar allt ensku því þar er enska annað tungumál. 

Það sama er ekki upp á teningnum í Thailandi sem þýðir að ef upplýsingamiðlun til þessara hópa byggir á að þýða yfir á ensku, er enskukunnáttan sjaldgæfari hjá fólki frá Thailandi. 

Fyrir vikið er algengt að fólk þaðan myndi sína eigin samfélagshópa innan íslenska samfélagsins.“

Stjórnendum til gagns mælir Irina líka með Hofstede greiningunni sem sjá má HÉR.

„Þar er búið að greina mismunandi menningarheima í sex víddum, þar sem hægt er að bera saman lönd. Margt þar er áhugavert og gæti nýst stjórnendum vel.“ segir Irina.

Irina telur það ekki jákvæða þróun að hópar starfsfólks af erlendum uppruna myndi sína eigin samfélagshópa á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það vantar svo upp á að þessi hópur geti lært íslensku eða leitað í úrræði sambærileg og til eru á Norðurlöndunum. Hún nefnir sem dæmi fólk frá Thailandi sem almennt er ekki með enskukunnáttu, ólíkt til dæmis fólki frá Filipseyjum þar sem enska er annað tungumál.Vísir/Vilhelm

Fleiri góð ráð

Irina mælir með því að vinnustaðir séu með mentor á staðnum til að taka sérstaklega á móti og aðstoða nýtt starfsfólk sem er af erlendum uppruna.

„Það er svo gott fyrir nýjan starfsmann að hafa tengilið sem hægt er að leita til. Enda er stéttaskipting erlendis víða þannig að viðkomandi telur sig oft ekki mega vera að pikka í yfirmanninn í tíma og ótíma og finnst það óþægilegt. Að vera með einhvern annan starfsmann sem hefur það að hlutverki að koma þér inn í starfið er mun þægilegri upplifun og gefst öllum vel.“

Þá segir Irina gott fyrir stjórnendur að reyna að skilja sem mest hver bakgrunnur fólks er af erlendum uppruna.

„Oft er ekki nóg að upplýsa fólk um réttindi og skyldur og þýða gögn um stéttarfélög og fleira. Því í mörgum löndum eru stéttarfélög ekki til staðar eða starfa allt öðruvísi sem þýðir að fólk er engu nær þótt það fái þessar upplýsingar þýddar á blaði án frekari skýringa.“

Sjálf er Irina formaður stjórnar faghóps Stjórnvísis um fjölbreytileika og inngildingu.

„Við ætlum að efla starfið okkar þar í vetur. Bæta við upplýsingum og gögnum um hvað er hægt að gera þannig að við séum meira að miðla þekkingu um inngildingu á vinnustöðum og í samfélaginu, hvað það þýðir og hvernig sköpum við inngilda vinnustaðamenningu þar sem starfsfólkinu finnst það tilheyrir (e. belong) “ segir Irina og bætir við að til langs tíma litið sé stóra markmiðið að byggja upp inngild fjölmenningarsamfélag þar sem mannauður er nýttur vel.


Tengdar fréttir

Algengt að fólk breyti nöfnum sínum eða taki útlenskt nafn af ferilskrá

„Mér finnst of algengt að vinnuveitendur horfi framhjá umsóknum fólks með útlenskt nafn og ákveði hreinlega fyrirfram að þetta sé einhver sem talar ekki ensku eða íslensku. Þetta á sérstaklega við um umsóknir fyrir stærri störf eða skrifstofustörf,“ segir Monika K. Waleszczynska ráðgjafi hjá Attentus.

Þurfum að fara varlega í að halda að við séum best

„Landslagið á Íslandi hefur breyst mikið síðustu árin og nú eru um 15% þjóðarinnar íbúar af erlendum uppruna. Samt erum við ekki að ræða nógu mikið um kynþátt, þjóðerni eða stöðu innflytjenda og tungumálið hefur ekki fylgt eftir þessum breytingum,“ segir Charlotte Biering hjá Marel.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×