Golf

Kylfu­sveinninn Tiger gaf syninum góð ráð sem leiddu til hans besta hrings frá upp­hafi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tiger og Charlie Woods.
Tiger og Charlie Woods. Getty Images

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og það stefnir allt í að áður en langt um líður verði nafnið Woods aftur meðal stærstu nafna golfheimsins. Charlie Woods, sonur Tiger Woods, virðist nefnilega ætla að feta í fótspor föður síns á golfvellinum.

Charlie Axel Woods er aðeins 13 ára gamall og eflaust ósanngjarnt að setja slíka pressu á drenginn en það er kominn dágóður tími síðan hann steig fyrst inn í sviðsljósið.

Hinn 46 ára gamli Tiger hefur ekki enn langt kylfuna á hilluna en erfið bakmeiðsli sem og skelfilegt bílslys á síðasta ári hafa svo gott sem gert út um möguleika hans að halda í við bestu kylfinga heims. Hann var því hvergi sjáanlegur þegar Bandaríkin lögðu heimsúrvalið og lyftu forsetabikarnum níunda árið í röð.

Tiger var nefnilega kylfusveinninn hans Charlie á Junior National Golf Championship-mótinu sem fram fór í Flórída. Eftir að spila á 80 höggum á fyrri hring mótsins þá spilaði Charlie á 68 höggum í gær, sunnudag. Spilaði hann brautina á fjórum höggum undir pari, hans besti árangur til þessa.

„Pabbi sagði mér að halda ró minni. Vera stöðugur í mínum leik, halda ró minni og einbeita mér að hverju skoti. Ekki horfa of langt fram í tímann og halda huganum inn í leiknum,“ sagði Charlie aðspurður hvað hefði breyst milli daga.

Ef Charlie heldur áfram að bæta sig, og hlusta á pabba sinn, þá ætti að styttast í að við sjáum hann á einhverjum af risamótunum í golfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×