Umræðan

Tilfinninganefndirnar

Ólafur Sigurðsson skrifar

Í áhugaverðum pistli Þorsteins Friðriks Halldórssonar um ESG heimsfaraldur tiltekur hann tilnefningarnefndir á Íslandi sem dæmi um málefni sem tengist heimsfaraldrinum. Mig langar að lofa hann og lasta fyrir þann þátt og er ofangreindur titill valinn í ljósi þess hvað málefnið virðast vera umdeilt. Þorsteinn skrifar þetta auðvitað ekki í tómarúmi og ég efast ekki um að hann eigi sér skoðanabræður og systur. Það er vel að öllum sjónarmiðum er haldið á lofti, það kallast upplýst umræða.

Þorsteinn bendir á að þrýstingur frá erlendum fjárfestum hafi orðið til þess að fyrstu nefndunum var komið á hér á landi og að síðar hafi sá þrýstingur tekið sér bólfestu í lífeyrissjóðum sem olli því að fyrirtæki „hafi tekið siðinn upp“. Hið rétta er að Viðskiptaráð Íslands, Kauphöllin og Samtök atvinnulífsins lögðu það til árið 2009 að slíkum nefndum yrði komið á í skráðum félögum sbr. 3. útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja.

Eftir að leiðbeiningunum var breytt 2009 var Sýn lengi vel eina félag með slíka nefnd að störfum og gott ef Skeljungur fylgdi ekki í kjölfarið við skráningu á markað.

 Lífeyrissjóðir áttu þar ekki hlut að máli annað en að SA skipar fulltrúa í stjórnir margra þeirra. Að mínu mati sver söguskýringin um síðari-bylgju-þrýsting frá lífeyrissjóðum sig svolítið í ætt við margt annað sem er gott að kenna lífeyrissjóðum um. Þá leyfi ég mér að efast um að breytingin 2009 hafi komið til vegna þrýstings erlendis frá en fyrirmyndin er klárlega erlend. Ég er sammála Þorsteini og tek undir með honum að markmiðin eru göfug þó reynslan sé misjöfn. Lýsingarorðið „göfugur“ er jafnan notað um þá sem setja aðra hagsmuni ofan sínum eigin og geta þannig talist óeigingjarnir.

Eftir að leiðbeiningunum var breytt 2009 var Sýn lengi vel eina félag með slíka nefnd að störfum og gott ef Skeljungur fylgdi ekki í kjölfarið við skráningu á markað. Það var svolítið til marks um virðingu markaðsaðila fyrri þessum leiðbeiningum þá, að fáar stjórnir ef nokkur sáu sig knúna til að útskýra af hverju nefndarstarfinu hafði ekki verið komið á. Leiðbeiningarnar eru ekki bindandi en meginreglan er að fylgja eða skýra. Undirritaður átti fjölmörg samtöl við stjórnendur áður en þrýstingurinn frá Eaton Vance kom til og það er miður að skýringarnar skuli ekki liggja fyrir. 

Ég tel það vera til marks um afslappaða afstöðu lífeyrissjóða til tilnefningarnefndanna að þær eru jafn misjafnar og þær eru margar.

Sá sjóður sem ég er í forsvari fyrir tók til að mynda þá afstöðu í upphafi að safna skýringum í stað þess að gera sérstaka kröfu um skipan slíkra nefnda. Í einu tilfelli man ég til þess að það hafi verið gert og féllust hluthafar á sjónarmiðin. Þá tel ég það vera til marks um afslappaða afstöðu lífeyrissjóða til nefndanna að þær eru jafn misjafnar og þær eru margar. Það býður þá upp á samanburð standi vilji til að halda þessu starfi áfram.

Annars er það vel að Þorsteinn skuli vekja athygli á málinu. Það skiptir máli að nú þegar við tökum fagnandi á móti erlendum vísitölusjóðum liggi fyrir einhver afstaða til málsins. Þó vísitölusjóðir hafi ekki mikla skoðun, hafa þeir skoðun á stjórnarháttum. Ef svarið er að nefndarstarfið flokkist undir einhverskonar ósið sem Eaton Vance og Lífeyrirsjóðir fluttu inn í kjölfar ESG heimsfaraldurs geri ég ráð fyrir að þeir lyfti að minnsta kosti brúnum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.


Tengdar fréttir

Heimsfaraldur ESG

Hugmyndin um ábyrgar fjárfestingar hefur farið um Vesturlönd eins og eldur í sinu. Á milli áranna 2005 og 2018 kom hugtakið ESG fram í brotabroti af uppgjörstilkynningum skráðra fyrirtækja samkvæmt greiningu eignarstýringarfélagsins Pimco. Þremur árum síðar var hlutfallið komið í tuttugu prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×