Umræðan

Heimsfaraldur ESG

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Hugmyndin um ábyrgar fjárfestingar hefur farið um Vesturlönd eins og eldur í sinu. Á milli áranna 2005 og 2018 kom hugtakið ESG fram í brotabroti af uppgjörstilkynningum skráðra fyrirtækja samkvæmt greiningu eignarstýringarfélagsins Pimco. Þremur árum síðar var hlutfallið komið í tuttugu prósent. Sömu sögu má segja um innflæði fjármagns í verðbréfasjóði sem kenna sig við sjálfbærni. Þessi ævintýralega útbreiðsla er ekki til marks um að nýstárleg aðferðafræði hafi verið innleidd að vel ígrunduðu máli. Þvert á móti er hún vísbending um hjarðhegðun.

Þrýstingur frá erlendum fjárfestum var stærsta ástæðan fyrir því að fyrstu tilnefningarnefndunum var komið á fót í Kauphöllinni um miðjan síðasta áratug. Þrýstingur að utan umbreyttist í innlendan þrýsting frá lífeyrissjóðum og ekki leið á löngu þar til mikill meirihluti skráðra fyrirtækja hafði tekið siðinn upp. Þó að göfug markmið búi að baki nefndunum hefur reynslan af þeim hér á landi verið æði misjöfn.

Í besta falli nær gagnsemi ESG-sjónarmiða fyrir lífeyrissjóði ekki lengra en svo að það er gott að hafa hana á bak við eyrað þegar tveir jafngóðir fjárfestingakostir standa til boða.

Með sama hætti hefur ESG-hugmyndafræðin hreiðrað um sig á Íslandi. Viðskiptabankarnir, svo dæmi sé tekið, hafa unnið að því að byggja upp græn og sjálfbær lánasöfn til að eiga greiðara aðgengi að erlendu fjármagni og íslenskir lífeyrissjóðir leggja sífellt meiri áherslu á þessi mál í samskiptum sínum við skráð félög í takt við systurstofnanir sínar úti í heimi.

En þróunin hefur borist til landsins með nokkurra ára töf. Sem dæmi má nefna að stjórnendur lífeyrissjóðanna tóku sérstaklega fram enginn afsláttur yrði gefinn af kröfu um ávöxtun eftir að hafa eyrnamerkt samtals 580 milljarða króna fyrir grænar fjárfestingar fram til ársins 2030. Til samanburðar leiddi könnun endurskoðunarfyrirtækisins PwC í ljós að 34 prósent alþjóðlegra stofnanafjárfesta voru reiðubúin að fórna ávöxtun til að knýja fram áherslur á ESG-þætti.

Annað dæmi eru sjálfbærnitengdir kaupaukar. Aðeins eitt fyrirtæki í Kauphöllinni, Marel, hefur innleitt slíka kaupauka á meðan ríflegur meirihluti fyrirtækja í FTSE100-vísitölunni, sem inniheldur hundrað stærstu fyrirtækin í kauphöllinni í London, hefur tengt launakjör stjórnenda við ESG-mælikvarða. Við eigum blessunarlega langt í land.

Grænu loforð lífeyrissjóðanna eru forvitnileg. Ef þeir ætla ekki að gefa neinn afslátt af ávöxtun grænna fjárfestinga, hefðu þeir ekki fjárfest í þessum eignum hvort eð er? Og er þá einhver umhverfislegur ávinningur fólginn í fyrirheitum sjóðanna ef verkefnin hefðu samt sem áður verið fjármögnuð?

Hinn möguleikinn er að sjóðirnir hefðu ekki fjárfest í verkefnunum en myndu að gera það til að fylla upp í kvótann. Það hlyti að koma niður á ávöxtuninni. Í besta falli nær gagnsemi ESG-sjónarmiða fyrir lífeyrissjóði ekki lengra en svo að það er gott að hafa hana á bak við eyrað þegar tveir jafngóðir fjárfestingakostir standa til boða.

En í dag standa öll spjót að ESG. Orkukrísan hefur knúið sjálfbæra hlutabréfasjóði til að beina fjármagni aftur í jarðefnaeldsneytisfyrirtæki og eignastýringarrisar á borð við BlackRock, sem áður töluðu digurbarkalega um virka ESG-nálgun á hluthafafundum, hafa ákveðið að draga úr stuðningi við tillögur þess efnis.

Stóra spurningin er hvort allt þetta heljarinnar umstang skili merkjanlegum ávinningi í samanburði við það sem annars hefði orðið.

„Margar loftslagstengdar tillögur á hluthafafundum leituðust við að stjórna hraðanum á orkuskiptum fyrirtækja án þess að taka tillit til röskunar á fjárhagslegri frammistöðu,“ sagði í skýrslu BlackRock um framkvæmd hluthafastefnu sinnar. Á sama tíma þjarma eftirlitsstofnanir og löggjafar að sjálfbærnigeiranum til að bregðast við sívaxandi áhyggjum af grænþvotti. 

Það má draga í efa hvort eitthvert gagn sé fólgið í hraðri útbreiðslu ESG-sjónarmiða þegar upp er staðið. Til að mynda er erfitt að greina samfélagslegan ábata í því að útiloka fjárfestinga í vopnaframleiðslu og tilteknu jarðefnaeldsneyti, eins og Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur innleitt í fjárfestingastefnu sína. Þvert á móti hefur stríðið í Úkraínu varpað ljósi á mikilvægi orkuöryggis og getu ríkja til að verja landamæri sín.

Að sama skapi er lítið vit í því, að minnsta kosti frá umhverfislegu sjónarhorni, að setja fjármagn í „sjálfbæra“ hlutabréfasjóði sem fjárfesta í tæknirisum og lyfjafyrirtækjum. Og enn fremur má setja spurningarmerki við græna endurfjármögnun fasteigna og innviða sem eru nú þegar til staðar. Stóra spurningin er hvort allt þetta heljarinnar umstang skili merkjanlegum ávinningi í samanburði við það sem annars hefði orðið. Kannski er raunin sú að hugmyndafræðin þjónar fylgjendunum fyrst og fremst.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á InnherjaAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.