Handbolti

„Selfoss kom okkur á óvart til að byrja með“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ágúst var ánægður með níu marka sigur á Selfossi
Ágúst var ánægður með níu marka sigur á Selfossi Vísir/Hulda Margrét

Valur vann sannfærandi níu marka sigur á Selfossi 18-27. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn. 

„Frammistaðan var góð á köflum. Selfyssingar komu okkur aðeins á óvart hvernig þær spiluðu gegn Theu [Imani Sturludóttir] sem gerði okkur erfitt fyrir til að byrja með. Vörnin og markvarslan var góð allan leikinn og heilt yfir er ég nokkuð sáttur með níu marka sigur og tvö stig á erfiðum útivelli,“ sagði Ágúst Jóhannsson í samtali við Vísi eftir leik. 

Þrátt fyrir erfiða byrjun náði Valur að taka yfir leikinn og var með sex marka forskot í hálfleik en Ágústi fannst sigurinn aldrei í höfn fyrr en lítið var eftir af leiknum.

„Ég var ekki rólegur fyrr en sjö mínútur voru eftir. Mér fannst þær baráttuglaðar það vantaði tvo góða leikmenn hjá þeim. Það var erfitt að hrista þær af okkur og stórt hrós á Selfoss. Það var gaman að spila á móti þeim þar sem það var mikið af áhorfendum og stemmningin var góð.“

Ágúst var ánægður með varnarleik Vals um miðjan seinni hálfleik sem varð til þess að Selfoss skoraði ekki í tæplega ellefu mínútur.

„Við náðum að skora auðveld mörk og slíta þær frá okkur. Varnarleikurinn var góður og við keyrðum í bakið á þeim.“

Roberta Ivanauskaité var allt í öllu í sóknarleik Selfoss í seinni hálfleik og skoraði níu af tíu mörkum liðsins.

„Mér finnst hún vera ein af bestu leikmönnunum í þessari deild og það kom mér ekkert á óvart við hennar leik en okkur tókst að halda hinum í skefjum og þá mátti hún skora,“ sagði Ágúst að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.