Rafíþróttir

Markmiðum RÍSÍ náð og tími kominn á nýtt fólk með ný markmið

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Hrafn Steinarsson.
Ólafur Hrafn Steinarsson. Vísir/Sigurjón

Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ), ætlar ekki að sækjast eftir því að starfa áfram sem formaður. Hann mun sömuleiðis ekki sækjast eftir sæti í stjórn samtakanna á aðalfundi samtakanna seinna í september.

Ólafur tilkynnti þetta í yfirlýsingu sem hann birti í dag enn hann hefur leitt samtökin frá stofnun þeirra og í gegnum mikla gróskutíma rafíþrótta hér á landi.

Fyrsti kynningarfundur samtakanna fór fram í nóvember 2018 en síðan þá hefur gífurlegur árangur náðst í starfi RÍSÍ. Hægt er að æfa rafíþróttir hjá fjölmörgum félögum og keppt er í nokkrum deildum, sem sýndar eru í sjónvarpi og á netinu.

Fór fram úr öllum vonum

Ólafur segist í samtali við Vísi vera ánægðastur með hvað starf RÍSÍ gekk mun betur en hann bjóst við. Mikið af frábæru fólki hafi tekið þátt í starfinu en tugir einstaklinga hafi komið að því á hverjum tímapunkti og viljað byggja starfið og þjónustu fyrir börn upp.

„Það fór fram úr öllum vonum hvað margir tóku undir þetta og keyptu þá hugsjón að þetta áhugamál eigi skilið gott umhverfi og keyrðu þá hugsjón áfram,“ segir Ólafur.

„Það eru nokkur þúsund krakkar á Íslandi að æfa rafíþróttir. Mér finnst það í rauninni algerlega klikkað hvað tölvuleikjaheimurinn hér á landi hefur tekið miklum stakkaskiptum á fjórum árum.“

Helstu markmiðum náð

Aðspurður um það hvort það sé eitthvað sem Ólafur hafi ekki náð að gera sem hann hefði viljað, segir hann svo ekki vera. Þegar samtökin hafi verið stofnuð hafi verið lögð fram áætlun um það hverju þau áttu að áorka og það hafi allt náðst.

Þar á meðal var að byggja upp hágæðainnviði fyrir rafíþróttaiðkun og segir Ólafur að hvergi annarsstaðar í heiminum en á Íslandi sé jafn mikið af tölvum í sameiginlegum rýmum þar sem stundaðar eru rafíþróttir, miðað við höfðatölu.

Sjá einnig: Ein dýrasta út­sending sögunnar muni skila milljörðum í þjóðar­búið

Einnig hafi forsvarsmenn samtakanna viljað tryggja uppbyggilegar og heilbrigðar æfingar í rafíþróttum og í dag séu þúsundir krakka að æfa íþróttir í um tuttugu félögum á landinu.

Eitt markmiðanna var að draga úr fordómum og byggja upp samfélag sem er tilbúið til að styðja einstaklinga í að bæta sig í tölvuleikjum á skipulagðan og uppbyggilegan hátt. Það segir Ólafur að hafi tekist.

Þá hafi einnig tekist að tryggja bæði iðkendum og áhorfendum aðgang að góðu keppnisumhverfi. Nú séu íslenskar keppnisdeildir í nokkrum leikjum sem sé vel stýrt og framleiðslan sé komin á frábært stig.

Ólafur segir áhorfið á rafíþróttir á Íslandi vera einstakt í heiminum. Hvergi annarsstaðar sé horft jafn mikið á lókal rafíþróttir en hér.

„Þess vegna finnst mér ég tilbúinn til að stíga til hliðar og hleypa öðrum að,“ segir Ólafur. Fyrstu markmiðum RÍSÍ hafi verið náð og nú sé komið að nýju fólki með ný markmið. Hann segist einnig ekki vilja skapa þannig andrúmsloft að formenn RÍSÍ sitji of lengi í embætti.

Staða formanns RÍSÍ er launalaus og Ólafur segir formannsetuna hafa kostað persónulegar fórnir.

Það má ekki gleymast að fyrst og fremst er maður í þessu hlutverki til að vinna fyrir samfélagið og hjálpa því að taka næstu skref,“ segir Ólafur. „Eins lengi og sú hugsjón getur verið að bakið, að menn séu tilbúnir að koma inn í starfið og vinna á fullu er ég bjartsýnn á að framtíðin sé björt.“

Vilja byggja upp atvinnumenn framtíðarinnar

Ólafur segir það geta verið erfitt að halda dampinn þegar hlutir fara svona hratt af stað eins og starfsemi RÍSÍ hefur gert. Þá detti fólk út og fari að gera annað, eins og gengur og gerist, því geti fyrirtæki eins og Esports Coaching Academy, sem Ólafur stofnaði, hjálpað til.

„Ástríða mín og það sem hefur heillað mig hvað mest er skipulagt yngra flokka starf í rafíþróttum,“ segir Ólafur. Hann segist hafa séð það á undanförnum árum að hér vanti enn meiri stuðning og þekkingarsköpun á sviði yngri flokka starfs í rafíþróttum til að hjálpa því að halda dampi og tryggja réttan og góðan stuðning fyrir þá sem munu í framtíðinni skipa atvinnumannaumhverfið á Íslandi.

Ólafur segir Ísland þó standa framarlega þegar kemur að þessum innviðum og störfum í yngri flokkum.

„Það kemur mér alltaf á óvart við erum langt á undan mörgum öðrum stöðum. Þó þetta finnist annarsstaðar er enginn á sama stað og við,“ segir Ólafur. Hann bendir til þess að víðast hvar á landinu geti börn sem hafi áhuga á tölvuleikjum farið að æfa rafíþróttir með jafnöldum sínum.

Það þurfi þó góðan grunn til að þjálfa yngri flokka og byggja upp góða rafíþróttamenn en rafíþróttir eru sífellt stækkandi grein í heiminum.

Með Esports Coaching Academy vilja Ólafur og samstarfsfólk hans byggja yngra flokka starf upp frekar.

„Viljum fara alla leið með þetta“

Ólafur segir að meðal annars standi til að byggja upp gagnagrunn um æfingar sem tengjast rafíþróttum. Það sé ekki til nein leikbók fyrir iðkendur og þjálfara.

„Við viljum búa til handbókina fyrir það breytilega umhverfi sem rafíþróttir eru. Leikbók fyrir þjálfara svo þeir séu undirbúnir og eigi auðveldar með að halda uppi góðri þjálfun.“

Sú leikbók á meðal annars að snúa að líkamlegu hliðinni fyrir iðkendur rafíþrótta og félagslegum æfingum, varðandi það hvernig byggja eigi upp liðsanda. Þau vilji þar að auki spyrja hvernig byggja eigi upp góðan rafíþróttarmann eða konu frá grunni sem byrji að æfa sig markvisst frá unga aldri. Hvað þurfi í rauninni til. 

Það séu allir að spyrja þess sama. Hvernig búa eigi til góðar æfingar sem allir geta tekið þátt í og notið góðs af og því vilji Ólafur og hans fólk svara. Þá eigi þetta alls ekki eingöngu við á Íslandi heldur út um allan heim, en Esports Coaching Academy hefur nú þegar menntað þjálfara í Bandaríkjunum og Puerto Rico og gefið þeim leiðbeiningar og grunn að góðu yngri flokka starfi.

„Við viljum fara alla leið með þetta. Þetta hefur blundað lengi í mér en það hefur verið erfitt að komast á fullu í það meðfram öllu öðru,“ segir Ólafur. Hann segir starfið nú vera komið á blússandi siglingu.

„Ég vona að við komumst nær þessu starfi sem lengi hefur verið unnið í hefðbundnum íþróttum,“ segir Ólafur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.