Viðskipti innlent

Ein dýrasta út­sending sögunnar muni skila milljörðum í þjóðar­búið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ólafur Hrafn Steinarsson er formaður Rafíþróttasamtaka Íslands.
Ólafur Hrafn Steinarsson er formaður Rafíþróttasamtaka Íslands. SIGURJÓN ÓLASON

Ein dýrasta sjónvarpsútsending Íslandssögunnar fer nú fram í Laugardalshöll þar sem heimsmeistaramót í rafíþrótt fer fram. Reiknað er með að mótið skili nokkrum milljörðum í þjóðarbúið og að áhorfið sé meira en á Eurovision.

Um er að ræða heimsmeistaramótið í League of legends sem er stærsti viðburður rafíþrótta á hverju ári. Mikið púður hefur farið í uppsetningu í höllinni sem nánast er óþekkjanleg á þessum myndum.

„Og ég skora á alla að kíkja og hugsa: Vá þetta er í alvörunni bara í gömlu handboltahöllinni í Laugardal,“ sagði Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands.

Hátt í 250 milljónir horfa á úrslitin

Hann segir að kostnaður við uppsetningu sviðanna sé trúnaðarmál en að hann hlaupi á nokkrum milljörðum.

Útsendingin spannar yfir nokkra daga en reikna má með að 150 til 250 milljónir áhorfenda horfi á úrslitin á hundrað milljón stöðum - en áhorfstölur hafa verið meiri en á Eurovision og úrslitakeppni NBA. 

Virði 60 milljarða íslenskra króna

Ólafur segir að verðmæti útsendingarinnar hlaupi á hálfum milljarði bandaríkjadala sem gera um rúma 60 milljarða íslenskra króna.

„Þannig þetta er töluvert verðmæt útsending og í raun og veru verðmætari og stærri en Eurovision að öllu leyti.“

Stórstjörnur í höllinni

Hann segir stórstjörnur keppa í höllinni.

„Liðin sem eru að koma frá Kóreu flugu hingað í einkaþotu. Reynt var að kaupa stærstu stjörnuna yfir til Kína fyrir 10 milljónir dollara. Þegar hann flaug þangað á fund þá mættu þrjú þúsund manns á flugvöllinn og öskruðu yfir sig þannig það var eins og að Bítlarnir væru að mæta.“

Ólafur segir að mótið skili nokkrum milljörðum í þjóðarbúið.

„Þá er ótalið yfir 20 þúsund gistinætur sem hafa komið með öllu starfsfólki og liðunum sem koma hingað og svo að sjálfsögðu verðmæti landkynningarinnar að halda útsendingu þar sem hundrað milljón manns á dag eru að horfa á það sem er að gerast í Laugardalnum hefur aukið hróður Íslands mikið á alþjóðavettvangi. Sérstaklega gagnvart nýjum hópi af nýfullorðnu fólki eða unglingum sérstaklega í Asíu sem hafa kannski aldrei heyrt um Ísland.“

Hægt er að fylgjast með útsendingunni á Stöð2 eSport.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×