Viðskipti innlent

Eik hættir við kaup á Lamb­haga

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi stofnaði Lambhaga árið 1979.
Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi stofnaði Lambhaga árið 1979. Vísir/Baldur

Eik fasteignafélag hefur hætt við að kaupa garðyrkjustöðvarnar Lambhaga í Úlfarsdal og Lund í Mosfellsdal. Kaupverð var áætlað 4,2 milljarðar króna.

Eik hafði einkarétt á kaupunum á grundvelli samkomulags en Garðar Hannes Friðjónsson forstjóri Eikar segir að einkarétturinn hafi runnið út í lok ágúst. Viðræður hafi haldið áfram en að rannsókn lokinni hafi niðurstaða félagsins verið sú að hætta við kaup á Lambhaga.

„Við erum stödd þannig núna að það slitnaði upp úr viðræðum, það náðist ekki að klára það. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en eins og er þá er þetta off,“ segir Garðar Hannes í samtali við fréttastofu.

Garðar segir að ekki hafi náðst að semja um verðið á Lambhaga, meðal annarra þátta í viðræðunum.

Fleiri fiskar í sjónum

Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi stofnaði Lambhaga árið 1979. Um er að ræða 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfársdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis og 6.821 fermetra gróðurhús að Lundi í Mosfellsdal - og 14.300 fermetra byggingarheimild.

Hafberg kveðst sallarólegur yfir viðræðunum, enda nóg að gera í garðyrkjunni.

„Það er núna eitthvað stopp, það eru fleiri fiskar í sjónum. Þó að þeir séu dottnir út úr skaftinu og koma kannski aftur - ég veit ekkert um það, en það hreyfir lítið við mér,“ segir Hafberg léttur í bragði.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.