Viðskipti innlent

Bjarni fagnar langþráðri hreinni sakaskrá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni hefur staðið í stappi við kerfið í tæpan áratug vegna málsins.
Bjarni hefur staðið í stappi við kerfið í tæpan áratug vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood og fjárfestir, er ekki lengur með dóm á bakinu fyrir meiriháttar skattalagabrot. Málinu var vísað frá héraðsdómi í Hæstarétti í gær. Bjarni segir réttlætið hafa sigrað.

Bjarna var tilkynnt í ársbyrjun 2012, eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra, að skattar hans hefðu verið endurákvarðaðir. Ástæðan var vantaldar fjármagnstekjur í tengslum við sölu hlutabréfa sem hann eignaðist við starfslok hjá Glitni.

Auk þess þurfti hann að borga 25 prósenta álag. Bjarni greiddi endurálögðu skattana auk álagsins í kjölfarið. Skattrannsóknarstjóri skaut máli Bjarna einnig til embættis sérstaks saksóknara sem gaf út ákæru á hendur honum. Lauk málinu með fyrrnefndum dómi auk sektar upp á 36 milljónir.

Bjarni leitaði til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði verið refsað tvisvar fyrir sama brotið. Þannig hefði verið brotið gegn fjórðu grein Mannréttindasáttmálans. Voru Bjarna dæmdar skaðabætur.

Bjarni óskaði í framhaldinu eftir endurupptöku á málinu sem Endurupptökudómur féllst á. Málinu var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í gær. Bjarni segir að með dómnum í gær hafi sakaskrá hans loksins verið hreinsuð.

„Dómurinn staðfesti það að mér hefði verið gerð tvöföld refsing, fyrst í skattamáli sem gert var upp að fullu og síðan í refsimáli vegna sömu mistaka við gerð skattframtala. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að sú málsmeðferð gengi í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu og hefur Hæstiréttur nú staðfest það,“ segir Bjarni.

„Ég fagna þessari niðurstöðu og því að réttlætið hafi sigrað að lokum. Það hlýtur hins vegar að teljast umhugsunarefni að opinbera kerfið hafi með öllum tiltækum ráðum eytt meira en áratug í afneitun sinni á hinu augljósa.“


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.