Körfubolti

Úkraína á heimleið af EuroBasket

Atli Arason skrifar
A.J. Slaughter var stigahæsti leikmaður Póllands gegn Úkraínu með 24 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
A.J. Slaughter var stigahæsti leikmaður Póllands gegn Úkraínu með 24 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Getty Images

Pólland sló nágranna sína frá Úkraínu úr leik í 16-liða úrslitum á EuroBasket í körfubolta í dag með átta stiga sigri í sveiflukenndum leik, 94-86.

Pólverjar byrjuðu leikinn betur og leiddu nánast allan fyrsta leikhluta sem þeir unnu með þremur stigum, 24-21.

Úkraína sýndi mótspyrnu í öðrum leikhluta og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 28-26. Leikurinn var í jafnvægi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Úkraína náði yfirhöndinni undir lok annars leikhluta og leiddu með þremur stigum í hálfleik, 45-42.

Í þriðja leikhluta hélt Úkraína forskoti sínu þangað til að Michal Sokolowski jafnar leikinn fyrir Pólverja í stöðunni 59-59. Pólverjar héldu áhlaupi sínu áfram og staðan fyrir lokaleikhlutan var 69-67, Póllandi í vil.

Fjórði leikhluti var jafn þar sem bæði lið skiptust á því að leiða leikinn. Um miðbik síðasta fjórðungs varð áhlaup Póllands til þess þeir voru níu stigum yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Úkraína svaraði fyrir sig minnkaði muninn niður í tvö stig þegar tæp mínúta var eftir, 88-86.

Þrjár síðustu tilraunir Úkraínumanna fóru hins vegar ekki ofan í körfuna á meðan Pólverjar juku á forskot sitt sem urðu til þess að lokatölur voru 94-86 fyrir Pólland.

A.J. Slaughter, leikmaður Póllands, var stigahæsti leikmaður vallarins með 24 stig á meðan stigaskor Úkraínumanna dreifðist jafnt yfir liðið þar sem fimm leikmenn náðu tveggja stafa stigaskori. Vyacheslav Bobrov var þeirra stigahæstur með 15 stig.

Pólland mun mæta Evrópumeisturunum frá Slóveníu í 8-liða úrslitum næsta miðvikudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×