Innherji

Betri samgöngur í viðræðum við ríkið um lánasamning

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Eigendur Betri samgangna, þ.e.a.s. ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, leggja félaginu til þrjá milljarða á ári.
Eigendur Betri samgangna, þ.e.a.s. ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, leggja félaginu til þrjá milljarða á ári. Vísir/Egill

Betri samgöngur, opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, hafa átt í viðræðum við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanka Íslands um fjármögnun félagsins með aðkomu ríkissjóðs.

Í framvinduskýrslu Betri samgangna fyrir fyrri hluta ársins kemur fram að fjármálafyrirtækið Fossar markaðir hafi verið félaginu til ráðgjafar varðandi fjármögnun þess.

„Viðræður standa nú yfir við fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka Íslands fyrir hönd ríkissjóðs um lánasamning,“ segir í skýrslunni.

Eigendur Betri samgangna, þ.e.a.s. ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, leggja félaginu til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar verður það gert með afhendingu Keldnalandsins, sem ríkið leggur félaginu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.

Lausafjárstaða er góð þannig að við höfum nægan tíma til að huga að þessu

Betri samgöngur, sem hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna Borgarlínunnar, hafa heimildir til lántöku til að tryggja viðunandi sjóðstreymi og jafna út misræmi á milli fjárfestinga og tekna, en lántakan er háð því skilyrði að ríkissjóður veiti lán eða ríkisábyrgð á láni. Í síðasta fjárlagafrumvarpi, sem var lagt fram í desember 2021, kom fram að fjármála- og efnahagsráðherra hefði heimild til að veita Betri samgöngum allt að 4 milljarða króna lán fyrir hönd ríkissjóðs en sú upphæð var áætluð viðbótarfjárþörf félagsins á árinu 2022.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir í samtali við Innherja að viðræðurnar séu á algjörum byrjunarreit og engar beinar tillögur liggi fyrir. „Lausafjárstaða er góð þannig að við höfum nægan tíma til að huga að þessu.“

Í ársreikningi Betri samgangna fyrir árið 2021 kom fram að handbært fé hefði numið 2.250 milljónum króna í lok ársins.

Í umsögn Ríkisendurskoðunar um síðasta fjárlagafrumvarp vakti stofnunin athygli á því að samgönguframkvæmdir sem ætlunin er að fjármagna með öðrum hætti en með beinum framlögum úr ríkissjóði geti haft áhættu í för með sér fyrir ríkissjóð, ekki síst ef áætlanir um kostnað við framkvæmdir og tekjur vegna notkunar hafa ekki verið útfærðar og eru mikilli óvissu háðar.

Ríkisendurskoðun rifjaði upp fjármögnun Vaðlaheiðarganga en eins og Innherji greindi frá lauk fjárhagslegri endurskipulagningu verkefnisins þannig að ríkissjóðurskuldbreytti 5 milljörðum af 20 milljarða króna láni í hlutafé og þynnti aðra hluthafa í göngunum verulega ásamt því að framlengja lokagjalddaga lánsins til ársins 2057.

„Gjalda þarf varhug þegar kemur að heimildum til lántaka með ábyrgð ríkisins þegar mikil óvissa ríkir um fjárhagsgrundvöll þess verkefnis sem lána skal til,“ sagði í umsögn Ríkisendurskoðunar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið benti hins vegar á að sá grundvallarmunur væri á Vaðlaheiðargöngum og verkefnum Betri samganga ohf. að það hefði legið fyrir frá upphafi að öll áhætta af því verkefni myndi vera í höndum ríkisins og að minna leyti í höndum sveitarfélaganna. 

„Fjármögnun verkefnisins er ætlað að byggja að mestu leyti á beinum framlögum ríkisins, flýti- og umferðargjöldum og af tekjum af sölu Keldnalandsins. Lánveitingin hefur í sjálfu sér engin áhrif á áhættu ríkisins af verkefninu þar sem tilgangur hennar er ekki að fjármagna verkefnið heldur að jafna sveiflur í framangreindum framlögum sem ríkið mun samkvæmt forsendum verkefnisins tryggja,“ sagði í svari ráðuneytisins. 

„Það er þannig skýrt í höfuðborgarsáttmálanum að gangi áætlanir um tekjur vegna flýti- og umferðargjalda og sölu Keldnalandsins ekki eftir muni ríkissjóður brúa bilið. Rétt er að taka fram að svo umfangsmikið framkvæmdaverkefni sem hér er um að ræða felur í sér umtalsverða áhættu. Það fyrirkomulag að jafna fjárstreymi með lánveitingum mun hvorki auka né draga úr þeirri áhættu. Hún mun hins vegar tryggja meiri stöðugleika og samfellu í framkvæmd verkefnisins.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×