Innherji

Hagnaður Stefnis minnkar um 16 prósent í „mjög krefjandi“ fjárfestingarumhverfi

Hörður Ægisson skrifar
Sjóðastýringarfélagið er í eigu Arion banka og virkar eignir í stýringu Stefnis voru um 274 milljarðar um mitt árið.
Sjóðastýringarfélagið er í eigu Arion banka og virkar eignir í stýringu Stefnis voru um 274 milljarðar um mitt árið.

Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, sem er í eigu Arion banka, hagnaðist um 529 milljónir króna á fyrri hluta ársins og dróst hann saman tæplega 16 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar félagið skilaði 629 milljónum í hagnað. Eignir í virkri stýringu félagsins lækkuðu um 14 milljarða frá áramótum og eru nú um 274 milljarðar.

Hreinar rekstrartekjur Stefnis, sem samanstanda nánast einvörðungu af umsýslu- og árangurstengdum þóknunum, lækkuðu um 60 milljónir og voru samtals tæplega 1.319 milljónir króna.

Fram kemur í skýrslu stjórnar með nýbirtum árshlutareikningi félagsins að helstu breytingar sem megi rekja til þess að virkar eignir í stýringu lækka á tímabilinu, eftir að hafa hækkað um 58 milljarða á öllu árinu 2021 þegar markaðsaðstæður voru afar hagfelldar, séu að fjárfestingarumhverfi innlendra og erlendra sjóða hafi verið „mjög krefjandi.“

Þannig hafi ávöxtun sjóða í stýringu Stefnis á fyrri árshelmingi 2022 í mörgum tilfellum verið neikvæð sökum markaðsaðstæðna sem má meðal annars rekja til stríðsreksturs í Evrópu, hnökra í aðfangakeðjum heimsins og auknum áhyggjum af verðbólgu og vaxtahækkunum víða í heiminum. „Jákvæða ávöxtun má helst sjá í blönduðum sjóðum sem eru með hátt verðtryggingarhlutfall og öðrum verðtryggðum afurðum,“ segir í skýrslu stjórnar félagsins.

Nær stöðugt útflæði hefur verið úr innlendum verðbréfasjóðum – hlutabréfasjóðum, blönduðum sjóðum og skuldabréfasjóðum – frá innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar sem hefur, ásamt versnandi hagvaxtahorfum og hækkandi verðbólgu, valdið auknum óróa á mörkuðum beggja vegna Atlantshafsins. Á fyrstu sjö mánuðum ársins nemur samanlagt nettó útflæði úr slíkum sjóðum um 15 milljörðum króna, að því er fram kemur í tölum frá Seðlabanka Íslands.

Fram kemur í árshlutareikningi Stefnir að innlausnir umfram sölu á nýjum hlutdeildarskírteinum í sjóðnum Stefnir – Innlend hlutabréf hs., sem er stærsti íslenski hlutabréfasjóðurinn, hafi numið 1.172 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Sjóðurinn er í dag um 33,2 milljarðar króna að stærð og hefur skilað 10,15 prósenta ávöxtun á síðustu tólf mánuðum, sem er hæsta ávöxtun allra hlutabréfasjóða opnir almenningi. Frá áramótum er sjóðurinn upp um 1,5 prósent en yfir sama tímabil hefur Úrvalsvísitalan lækkað um rúmlega 18 prósent.

Á fyrri árshelmingi voru stofnaðir þrír nýir sjóðir – Sustainable Arctic Fund, Innlend hlutabréf Vogun og Milti Strategy Fund II – hjá Stefni.

Eigið fé Stefnis stóð í 2,3 milljörðum króna um mitt árið og var eiginfjárhlutfall félagsins rúmlega 57 prósent. Á aðalfundi Stefnis í mars síðastliðnum var samþykkt að greiða úr um 1.456 milljónir króna í arð vegna afkomu síðasta árs.

Í byrjun maí tók Jón Finnbogason við sem framkvæmdastjóri Stefnis en hann hafði áður verið forstöðumaður fyrirtækja innan fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs Arion banka. Tók hann við starfinu af Jóhanni Möller sem var samhliða ráðinn framkvæmdastjóri markaða hjá Arion.


Tengdar fréttir

Jón Finnbogason ráðinn framkvæmdastjóri Stefnis

Jón Finnbogason, sem hefur undanfarin ár verið forstöðumaður fyrirtækja innan fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs Arion banka, hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri sjóðastýringarfélagsins Stefnis, dótturfélags Arion og mun hefja störf í byrjun næsta mánaðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.