Viðskipti innlent

Hrað­­lestinni á Lækjar­­götu lokað

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hraðlestin hefur rekið veitingastað á Lækjargötu síðan árið 2012. Nú er hins vegar komið að lokum þar.
Hraðlestin hefur rekið veitingastað á Lækjargötu síðan árið 2012. Nú er hins vegar komið að lokum þar. Hraðlestin

Hinn sívinsæli veitingastaður Hraðlestin hefur ákveðið að loka veitingastað sínum á Lækjargötu. Síðasti opnunardagurinn verður á fimmtudaginn.

Hraðlestin opnaði á Lækjargötu 8 árið 2012 eftir að hafa ráðist í umfangsmiklar endurbætur á húsinu. Þá hafði samnefndur veitingastaður verið rekinn á Hverfisgötunni í níu ár og er hann enn opinn í dag. Sá staður fagnar tuttugu ára afmæli á næsta ári. 

Nú er hins vegar komið að endalokum á Lækjargötu og segjast eigendurnir kveðja staðinn með tár í auga, en bros á vör. Í tilkynningu á Facebook-síðu Hraðlestarinnar segir að áratugurinn á Lækjargötu hafi verið afar indæll.

„Á þessum áratug höfum við boðið vegfarendum að gægjast inn í menningarheim Indlands. Við höfum séð götuna opna og lokaða, tóma á tímum samkomutakmarkana og nú iðandi af lífi á ný,“ segir í tilkynningunni.

Þá hafa starfsmenn staðarins getað fylgst með hátíðarhöldum, maraþonhlaupurum, nýstúdentum og ferðamönnum fyrir utan gluggann.

Í tilkynningunni segir að Hraðlestarfjölskyldan hafi breyst og kröfur viðskiptavina hafi þróast. Þeirra markmið sé og verður alltaf að þjóna gestum eins og best verður á kostið.

„Kærar þakkir fyrir árin tíu. Við kveðjum Lækjargötuna með tár í auga en bros á vör og hlökkum til að sjá á hvaða áfangastað Hraðlestin lendir næst,“ segir í tilkynningunni en frá og með næsta föstudegi geta aðdáendur Hraðlestarinnar heimsótt stað þeirra á Hverfisgötu sem er nýuppgerður.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×