Innherji

Sex líf­eyris­sjóðir hafa sett mark­mið um vægi grænna fjár­festinga

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Áætlanir sjóðanna gera ráð fyrir fjárfestingum í umhverfisvænum verkefnum innanlands en töluverður hluti mun þó streyma í erlenda fjárfestingasjóði. 
Áætlanir sjóðanna gera ráð fyrir fjárfestingum í umhverfisvænum verkefnum innanlands en töluverður hluti mun þó streyma í erlenda fjárfestingasjóði.  VÍSIR/VILHELM

Minnst sex af þeim þrettán lífeyrissjóðum sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) hafa sett markmið um að grænar fjárfestingar verði ákveðið hlutfall af eignum árið 2030. Haldi sú þróun áfram gætu grænar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða orðið töluvert meiri en áður var gert ráð fyrir.

Lífeyrissjóðirnir þrettán skrifuðu í fyrra undir viljayfirlýsingu við CIC þar sem fram kom að sjóðirnir myndu fram til ársins 2030 fjárfesta fyrir 4,5 milljarða Bandaríkjadala, um 580 milljarða króna miðað við þáverandi gengi, í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum.

Í samræmi við viljayfirlýsinguna hafa sex sjóðir, þar á meðal Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, stærsti lífeyrissjóður landsins, sett markmið um að verja ákveðinni upphæð í græn verkefni fram til ársins 2030. Að jafnaði er upphæðin i kringum 300 milljónir Bandaríkjadala, eða um 40 milljarðar króna, hjá hverjum sjóði fyrir sig en Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV) og Gildi lífeyrissjóður skera sig úr hópnum.

LV, næststærsti sjóðurinn, hefur þannig gefið út að sjóðurinn ætli að setja 150 milljarða í grænar fjárfestingar á tímabilinu og gerir ráð fyrir að þær verði um 5 prósent af eignum þegar upp er staðið. En hlutfallið kann að hækka á næstu árum eins og Tómas Njáll Möller, yfirlögfræðingur LV, gaf til kynna í samtali við Ríkisútvarpið í fyrra.

„Það kæmi mér ekki á óvart að þetta verði orðið miklu stærra hlutfall eftir níu ár, bara vegna þess að umhverfið sem við erum að fjárfesta í breytist svo hratt,“ sagði Tómas.

Þá hefur Gildi ákveðið að fjárfesta um 95 milljörðum grænum verkefnum fram til ársins 2030 en sú fjárhæð samsvarar um 8 prósentum af áætlaðri stærð lífeyrissjóðsins.

Aðrir í hópnum hafa sett hlutfallsleg markmið. Birta lífeyrissjóður hefur til að mynda sett markmið um að hlutfall grænna eigna verði átta prósent. Byggt á áætlaðri stærð eignasafns Birtu yfir þetta tímabil má reikna með að um sé að ræða samtals 66 milljarða króna nýfjárfestingu í grænum verkefnum á þessum árum.

Ef miðað er við hlutföll hafa Festa lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður bankamanna gengið hvað lengst en báðir sjóðir stefna að því að 10 prósent eigna verði orðin græn að átta árum liðnum. Þá hefur Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (SL) sett markmið um 7,5 prósenta hlutfall og Stapi lífeyrissjóður vill ná því upp í 5 prósent. Markmiðin liggja því á bilinu 5 til 10 prósent.

Á síðasta ári kom fram í máli stjórnenda tveggja sjóða að stærð íslenskra lífeyrissjóða, sem var um 5.700 milljarða króna í byrjun árs 2021, gæti hugsanlega tvöfaldast til ársins 2030 og numið um 11.400 milljörðum. Ekki er víst að sjóðirnir muni stækka svo mikið en ef miðað er við þessa tölu til einföldunar myndu 5 prósent af eignum jafngilda 570 milljörðum króna, sem er í samræmi við viljayfirlýsinguna.

Verði þróunin hins vegar sú að stórir sjóðir á borð við LSR, Almenna og Frjálsa setji sér hlutfallsleg markmið yfir fimm prósentum eins Birta, Festa og SL gæti upphæðin orðið töluvert hærri. Munar þar mestu um LSR sem er langsamlega stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir upp á 1.350 milljarða króna í lok árs 2021. Núgildandi áform sjóðsins um að verja 50 milljörðum króna í grænar fjárfestingar jafngilda um 3,7 prósentum af heildareignum í lok síðasta árs og hlutfallið er mun minna ef miðað er við áætlaða stærð hans að átta árum liðnum.

Grænar fjárfestingar sjóðanna geta tekið á sig ýmsar myndir. Lífeyrissjóðirnir geta fjárfest með beinum hætti í einstaka hlutabréfum, grænum skuldabréfum eða grænvottuðum fasteignum en þeir geta einnig fjárfest með óbeinum hætti í margs konar sjóðum.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar Gildis, sagði í samtali við Innherja í nóvember að hann gerði ráð fyrir að mikill meirihluti þessara fjárfestinga, að minnsta kosti í tilfelli Gildi, yrði erlendis en það myndi að endingu ráðast af framboði slíkra fjárfestingarkosta hér heima.

„Það er hins vegar mikil þróun að eiga sér stað í þessum málaflokki í dag, mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og tengdum lausnum. Eins höfum við séð töluverða aukningu á undanförnum árum á útgáfu grænna skuldabréfa sem og á grænvottun fasteigna og við gerum ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram á komandi árum,“ sagði Davíð.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, sagði áætlanir Stapa gera ráð fyrir að sjóðnum bjóðist að fjárfesta beint í grænum félögum á Íslandi.

„Þau félög geta verið rótgróin innviðafyrirtæki eða nýrri félög. Framboð af slíkum fjárfestingakostum er háð töluverðri óvissu, stundum býðst að fjárfesta fyrir háar fjárhæðir á nokkuð skömmum tíma (t.d. sala á hlutum í innviðafélögum) en þess á milli getur verið nokkur þurrkur,“ segir Jóhann Steinar.

„Til að áætlanir okkar um fjárfestingu í slíkum verkefnum innanlands gangi eftir þarf nokkuð reglulegt framboð eða stór stök fjárfestingaverkefni. Gangi áætlun okkar um fjölgun grænna fjárfestingakosta hérlendis ekki eftir má búast við því að við sækjum grænar fjárfestingar í auknum mæli erlendis.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×