Innherji

Grænar fjárfestingar ekki pólitískari eða umdeildari en margt annað

Hörður Ægisson skrifar
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs en í viðtali við Innherja segir hann engan vafa leika á um að sjóðurinn sé að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna með því að horfa til UFS-viðmiða í fjárfestingarstefnu sinni.
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs en í viðtali við Innherja segir hann engan vafa leika á um að sjóðurinn sé að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna með því að horfa til UFS-viðmiða í fjárfestingarstefnu sinni.

Lífeyrissjóðurinn Birta telur að aukin áhersla á grænar fjárfestingar á komandi árum, sem fellur undir þau UFS-viðmið sem sjóðurinn hefur sett sér í fjárfestingarstefnu sinni, geti skilað sjóðsfélögum betri ávöxtun til lengri tíma litið. Sjóðurinn stefnir að því að um átta prósent af eignasafni hans verði í slíkum fjárfestingum fyrir árslok 2030. Það er um þrisvar sinnum hærra hlutfall en er í dag.

Þetta segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, í viðtali við Innherja en þar ræðir hann meðal annars um umboðsskyldu lífeyrissjóða þegar kemur að fjárfestingum á grundvelli UFS-viðmiða – umhverfis- og félagslegir þættir og stjórnarhættir – og hafnar hann þeim rökum að sjóðirnir séu mögulega að fara út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að líta til slíkra þátta í fjárfestingarstefnunni.

Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á liðlega 550 milljarða króna

„Málaflokkurinn er ekki pólitískari eða umdeildari en margt annað sem meta þarf í fjárfestingum. Pólitísk áhætta er áhætta á að stjórnvöld bregðist við og setji lög og reglur sem hafa áhrif á fjárfestingar. Leggi stjórnvöld meðal annars sérstaka skatta á fyrirtæki sem menga mikið,“ útskýrir Ólafur, „hefur það vitaskuld áhrif á rekstur þeirra og þá þarf að leggja mat á hvernig brugðist er við því.“

Markmið Birtu með UFS-viðmiðum í fjárfestingarferli sjóðsins til viðbótar við hina hefðbundnu fjárhagslegu þætti, eins og aðrir lífeyrissjóðir og mörg skráð fyrirtæki eru farin að gera í auknum mæli, er að skila betri arðsemi á viðkomandi fjárfestingu til lengri tíma litið og á sama tíma að auka velferð samfélagsins í heild sinni.

Leggi stjórnvöld meðal annars sérstaka skatta á fyrirtæki sem menga mikið hefur það vitaskuld áhrif á rekstur þeirra og þá þarf að leggja mat á hvernig brugðist er við því.

Í samræmi við þá nálgun var Birta í hópi þeirra þrettán íslensku lífeyrissjóða sem lýstu því yfir í nóvember á liðnu ári að þeir ætluðu sér að fjárfesta fyrir samanlagt 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) og kynntu á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow í Skotlandi.

Pólitík eða fjárhagslegir hagsmunir sjóðsfélaga?

Innherji greindi frá því í síðustu viku að í nýrri fjárfestingarstefnu Birtu fyrir 2022 kæmi fram að sjóðurinn áformaði samtals um 66 milljarða króna nýfjárfestingu í slíkum grænum verkefnum til ársins 2030. Sjóðurinn myndi hins vegar ekki veita afslátt af arðsemismarkmiði við val á fjárfestingum heldur einungis horfa á það sem einn þáttinn af mörgum þegar afstaða væri tekin til fjárfestinga.

Sumir hafa sett fram efasemdir um að sjóðunum sé stætt á að skrifa undir slíka viljayfirlýsingu með hliðsjón af því viðskiptasambandi sem ríkir á milli lífeyrissjóðs og lífeyrisþega. Í grein sem Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, skrifaði á Innherja – undir yfirskriftinni Umboðsskylda á pólitískum tímum – minnti hann þannig á að fjárhagslegir hagsmunir umbjóðenda lífeyrissjóðanna væru þeirra meginhagsmunir.

„Eftir stendur hvort skuldbinding lífeyrissjóða til fjárfestingar fjármuna umbjóðenda sinna í málaflokk sem er öðrum þræði pólitískur og því í eðli sínu umdeildur, meðal að minnsta kosti hluta umbjóðenda lífeyrissjóðanna, falli undir umboðsskyldu þeirra eður ei,” sagði í grein Ársæls.

Ólafur segir hins vegar við Innherja engan vafa leika á um að Birta sé að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna með því að horfa til UFS-viðmiða í fjárfestingarstefnu sinni og segir að í skrifum sínum tengi Ársæll ekki hugmyndafræðina um að hámarka fjárhagslega hagsmuni við bestu mögulegu ávöxtun að teknu tilliti til áhættu.

Eftir stendur hvort skuldbinding lífeyrissjóða til fjárfestingar fjármuna umbjóðenda sinna í málaflokk sem er öðrum þræði pólitískur og því í eðli sínu umdeildur falli undir umboðsskyldu þeirra eður ei.

Máli sínu til stuðnings vísar Ólafur í grein sem bandarísku lagaprófessorarnir Robert H. Sitkoff og Max M. Schanzenbach birtu í Stanford Law Review í ársbyrjun 2020* þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að umboðsskylda lífeyrissjóða – að minnsta kosti í tilfelli Bandaríkjanna – heimili þeim að nota UFS-viðmið út frá skynsemisreglunni. „Það eigi við ef stjórnendur sjóðsins hafi ályktað með sanngjörnum hætti að slík viðmið muni gagnast rétthafanum beint og bæta um leið áhættuleiðrétta ávöxtun,“ útskýrir Ólafur, og bætir við:

„Í grein þeirra Sitkoff og Schanzenbach er bent réttilega á að það verður að vera tilgangur lífeyrissjóðsins fyrir UFS-viðmiðinu. Rökfærslan hjá þeim hafnar þá einnig þeirri túlkun að skynsemisreglan feli í sér skyldu til að innleiða viðmiðin ef ályktun sjóðsins, eða fjárvörsluaðilans, er sú að hún leiði ekki til betri ávöxtunar þegar búið er að taka mið af áhættu.“

Ólafur segist vera þessu sammála. „Ég myndi beita sömu rökum ef til dæmis löggjafinn hér á landi væri með áform um að lögþvinga lífeyrissjóði til að taka tillit til UFS-sjónarmiða sem eru aðeins eins og hver önnur virk fjárfestingarstefna – hvorki meira né minna. Þetta er hugmyndafræðileg nálgun við eignastýringu þar sem niðurstaða stjórnar og starfsfólks Birtu er að UFS-málefni geti skilað sjóðsfélögum meiri ávöxtun til lengri tíma litið. Það er jafnframt í samræmi við þá umboðsskyldu sem skilgreind er í lögum um lífeyrissjóði, að stjórn skuli setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingarstefnu.“

Verið að „slá ryki í augu sjóðsfélaga“ með meintum umboðsvanda

Ársæll bendir hins vegar á í grein sinni að um það sé deilt til hvaða ráðstafana eigi að grípa til að stemma stigu við vaxandi hlýnun jarðarinnar – og eins hversu aðkallandi hættan sé.

Aðspurður hvort það valdi ekki Birtu af þeim sökum erfiðleikum út frá umboðsskyldu þegar lífeyrissjóðurinn skuldbindur sig til að ráðast í grænar fjárfestingar fyrir tugi milljarða á næstu árum segir Ólafur svo ekki vera og telur Ársæl vera að „slá ryki í augu sjóðsfélaga“ með meintum umboðsvanda okkar í UFS málefnum og annarra lífeyrissjóða.

Ég myndi beita sömu rökum ef til dæmis löggjafinn hér á landi væri með áform um að lögþvinga lífeyrissjóði til að taka tillit til UFS-sjónarmiða sem eru aðeins eins og hver önnur virk fjárfestingarstefna – hvorki meira né minna.

„Að mínu viti slær Ársæll rökin úr höndum sér þegar hann segist ekki vilja fullyrða hverjir hafa rétt og rangt fyrir sér í umfjöllun um stærstu umhverfisáhættu samtímans. Hann ræður það sjálfur af nokkrum tilgreindum dæmum að margt teljist enn mjög óljóst eða skammt á veg komið er varðar nákvæmlega hvað og þá hvernig skuli bregðast við. Með þessu er hann í raun að lýsa hugtakinu „áhætta“, sem er oftar en ekki „óljós“ og þá er ekki augljóst hvernig nákvæmlega skuli bregðast við henni. Það er ekki beint skynsamlegast að tengja bara umboðsskylduna við ávöxtun en sleppa áhættu, jafnvel þó hún sé óljós,“ segir Ólafur.

Aðspurður segist hann ekki taka undir að umræða um UFS-þætti snúist sérstaklega um pólitík heldur sé oft fremur um fjárhagslega hagsmuni að ræða og tekur sem dæmi áhrifin á afkomu fyrirtækis sem þyrfti að bregðast mögulega við nýjum skatti vegna mengunar sem það veldur með starfsemi sinni.

„Ef fyrirtækið getur lækkað kolefnisfótsporið dregur úr áhættunni borið saman við stjórnendur fyrirtækja sem segja UFS vera pólitískan málaflokk og skammt á veg kominn. Það er svolítið eins og stjórnandi fyrirtækis sem þusar yfir því að spilliefnagjaldið teljist vera rán um hábjartan dag í stað þess að breyta framleiðsluferlinu og losa sig við spilliefnið. Sumir sem hafa prófað það koma til okkar og segja að það hafi ekki bara lækkað losunarkostnað heldur líka lækkað innkaupakostnað og að hagrænu rökin hafi gleymst af því að það var ekkert spilliefnagjald þegar framleiðsluferillinn var upphaflega ákvarðaður. Ársæll má hins vegar mín vegna sulla í sínum smurolíupolli,“ segir Ólafur, og bætir við:

Það er svolítið eins og stjórnandi fyrirtækis sem þusar yfir því að spilliefnagjaldið teljist vera rán um hábjartan dag í stað þess að breyta framleiðsluferlinu og losa sig við spilliefnið.

„Ég held að það sé ekki af ástæðulausu sem þjóðarleiðtogar heims funda árlega og lýsa áhyggjum sínum yfir umhverfismálum. Áhyggjur er sama og áhætta og þegar langtíma áhættuleiðrétt ávöxtun er metin er óvissan mikil. Sjóðsfélagar Birtu ættu ekki, frekar en Ársæll, að hafa áhyggjur af víðri túlkun okkar á umboðsskyldunni,“ útskýrir hann.

* Reconciling Fiduciary Duty and Social Conscience: The Law and Economics of ESG Investing by a Trustee, Stanford Law Review, febrúar 2020.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Þrjú fyrirtæki með yfir 90 prósent af kolefnisspori eignasafnsins

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur birt ítarlegt mat á UFS-þáttum eignasafnsins en á meðal þess sem matið varpar ljósi á er að sú staðreynd að rekja má meira en 90 prósent af kolefnisspori innlenda eignasafnsins til þriggja skráðra fyrirtækja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×