Innherji

Lífeyrissjóðir ætla ekki að gefa neinn afslátt til að fylla græna kvótann

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lífeyrissjóðirnir munu meðal annars horfa til verkefna sem nýta jarðvarma.
Lífeyrissjóðirnir munu meðal annars horfa til verkefna sem nýta jarðvarma. VÍSIR/VILHELM

Stjórnendur hjá lífeyrissjóðunum Gildi og Stapa segja að ekki verði slakað á neinum kröfum sem sjóðirnir gera til fjárfestingakosta til þess að fylla upp í kvóta fyrir grænar fjárfestingar. Útlit er fyrir að meirihluti grænna fjárfestinga lífeyrissjóða verði í gegnum erlenda sjóði enda felst áhætta í því að mikið fjármagn elti takmarkaðan fjölda grænna fjárfestinga á Íslandi.

Þrettán íslenskir lífeyrissjóðir, þar á meðal Gildi og Stapi, ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) og kynntu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow í Skotlandi.

„Við erum mjög meðvituð um áhættuna sem getur falist í því að mikið fjármagn leiti sömu eiginleika fjárfestingakosta á sama tíma,“ segir Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, spurður hvort hætta sé á grænni eignabólu hér á landi þegar svo miklir fjármunir eru eyrnamerktir til grænna fjárfestinga.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar Gildis lífeyrissjóðs, tekur í sama streng. „Þetta er eitthvað sem þarf alltaf að hafa í huga. Einmitt af þessari ástæðu gerum við ráð fyrir því að verulegur hluti af þessum fjárfestingum verði erlendis.“

Gildi hefur ákveðið að fjárfesta um 95 milljörðum króna í sjálfbærum og grænum orkutengdum verkefnum fram til ársins 2030 en sú fjárhæð samsvarar um 8 prósentum af áætlaðri stærð lífeyrissjóðsins. Áherslan er á verkefni sem tengjast framleiðslu á hreinni orku, bættri orkunýtingu og bættri tækni við flutning á hreinni orku.

Davíð segir að við innleiðingu umhverfislegra og félagslegra þátta, og stjórnarhátta (UFS) í stýringu eigna skipti miklu máli að sjóðstjórar hafi umboðsskyldu sína gagnvart eigendum fjármunanna ávallt í huga. Áherslan þurfi að vera fyrst og síðast á ávöxtun eigna og stýringu á áhættu.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar Gildis lífeyrissjóðs

„Það er mikilvægt að halda því til haga að með aðkomu að þessu verkefni CIC erum við hjá Gildi ekki á nokkurn hátt að gefa einhvern afslátt á ávöxtun fjármuna sjóðsins. Þvert á móti þá horfum við til þess að þessar áherslur séu vel til þess fallnar að stuðla að aukinni ávöxtun sjóðfélaga á komandi árum,“ segir Davíð. Meti Gildi það svo að áherslurnar muni ekki stuðla að aukinni ávöxtun þurfi að endurskoða markmiðið.

Jóhann Steinar segir að með þátttöku í CIC-samstarfinu gefi Stapi ekki eftir í áreiðanleikakönnunum eða arðsemismarkmiðum þegar græn verkefni eru tekin til skoðunar. 

„Við förum því ekki í skilyrðislaus kaup á grænum fjárfestingakostum til að fylla upp í kvóta hverju sinni.“

Grænar fjárfestingar sjóðanna geta tekið á sig ýmsar myndir. Lífeyrissjóðirnir geta fjárfest með beinum hætti í einstaka hlutabréfum, grænum skuldabréfum eða grænvottuðum fasteignum en þeir geta einnig fjárfest með óbeinum hætti í margs konar sjóðum.

„Hér heima gerum við ráð fyrir áframhaldandi aukningu í útgáfu grænna skuldabréfa sem myndar væntanlega meginstofn innlendra grænna fjárfestinga okkar,“ segir Jóhann Steinar. Erlendis fjárfestir Stapi nær eingöngu í gegnum sjóði og því verður horft til þess að auka vægi sjóða með hærra hlutfall grænna fjárfestinga.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs.

Áætlanir Stapa gera einnig ráð fyrir að sjóðnum bjóðist að fjárfesta beint í grænum félögum á Íslandi.

„Þau félög geta verið rótgróin innviðafyrirtæki eða nýrri félög. Framboð af slíkum fjárfestingakostum er háð töluverðri óvissu, stundum býðst að fjárfesta fyrir háar fjárhæðir á nokkuð skömmum tíma (t.d. sala á hlutum í innviðafélögum) en þess á milli getur verið nokkur þurrkur,“ segir Jóhann Steinar.

„Til að áætlanir okkar um fjárfestingu í slíkum verkefnum innanlands gangi eftir þarf nokkuð reglulegt framboð eða stór stök fjárfestingaverkefni. Gangi áætlun okkar um fjölgun grænna fjárfestingakosta hérlendis ekki eftir má búast við því að við sækjum grænar fjárfestingar í auknum mæli erlendis.“

Davíð segir að áform Gildis taki mið af því að framboð arðbærra grænna verkefna verði nægilegt. Hann gerir ráð fyrir að mikill meirihluti þessara fjárfestinga verði erlendis en það muni að endingu ráðast af framboði slíkra fjárfestingarkosta hér heima.

„Það er hins vegar mikil þróun að eiga sér stað í þessum málaflokki í dag, mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og tengdum lausnum. Eins höfum við séð töluverða aukningu á undanförnum árum á útgáfu grænna skuldabréfa sem og á grænvottun fasteigna og við gerum ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram á komandi árum.“

Ör vöxtur í útgáfu grænna skuldabréfa

Það sem af er ári hefur útgáfa grænna skuldabréfa numið 107 milljörðum króna en til samanburðar var útgáfan alls 47 milljarðar króna á árinu 2020. Megnið af útgáfu grænna skuldabréfa á þessu ári má rekja til Landsbankans og Arion banka sem gáfu út græn skuldabréf fyrir samtals 722 milljónir dala, eða um 95 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Fasteignafélög eru í góðri stöðu til að gefa út græn bréf til að endurfjármagna umhverfisvottaðar byggingar. Reitir og Eik kunna á einhverjum tímapunkti að fylgja í fótspor Regins með útgáfu grænna og einnig kunna að felast tækifæri fyrir innviðafyrirtæki eins og Landsnet og Mílu í því að smíða grænan fjármögnunarramma.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í svari við fyrirspurn Innherja, að fyrirtækið hafi til skoðunar kröfur sem eru gerðar til græns fjármögnunarramma og hvaða áhrif hann geti haft á lánsfjármögnun Landsnets.

„Við lítum þetta jákvæðum augum enda færu þar saman vaxandi áhugi lánveitenda á stefnum lántaka í málefnum er varða umhverfismál, samfélag og stjórnarhætti, annars vegar, og áherslur okkar í þessum málaflokkum, hins vegar.“

Ríkissjóður er í sérflokki þegar kemur að umfangi skuldabréfaútgáfu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út sjálfbæran fjármögnunarramma í september síðastliðnum og hefur sá rammi hlotið „dökkgræna“ einkunn hjá CICERO Shades of Green sem er alþjóðlega viðurkenndur og sjálfstæður vottunaraðili.

Leiðrétting: Upphaflega var fullyrt að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði enn ekki gefið út sjálfbæran fjármögnunarramma. Það var er rangt og hefur verið leiðrétt.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Umboðsskylda á pólitískum tímum

Fáum dylst að nú er COP26 nýlokið sem er ráðstefna 197 landa sem hafa undirgengist sáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur að markmiði að „Preventing “dangerous” human interference with the climate system.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.