Þetta er haft eftir Guðmundi Björgvin Helgasyni ríkisendurskoðanda í Morgunblaðinu í dag. Upphaflega átti skýrslan að vera tilbúin í lok júní en Guðmundur segir verkið hafa reynst umfangsmikið og það skýri tafirnar.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir að ekki hafi verið tekið ákvörðun um hvort efnt verði til sérstakra þingfunda vegna skýrslunnar. Slíkt hafi verið rætt í vor en þá hafi verið reiknað með að skýrslunni yrði skilað mun fyrr.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir því þann 7. apríl síðastliðinn að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Degi síðar var svo greint frá því í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun að stofnunin myndi verða við beiðni ráðherra um úttekt. Var þá sagt að niðurstöður úttektarinnar yrðu birtar í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði.