Innherji

Kaupmáttaraukning síðustu ára gnæfir yfir hin Norðurlöndin

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Katrín Ólafsdóttir, dósents í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd.
Katrín Ólafsdóttir, dósents í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd.

Kaupmáttur launafólks á Íslands jókst um 57 prósent á tímabilinu 2012 til 2021 en á Norðurlöndunum nam kaupmáttaraukning einungis 2-10 prósentum yfir sama tímabil. Þetta kemur fram í skýrslu Katrínar Ólafsdóttur, dósents í hagfræði og nefndarmanns í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, um vinnumarkaðinn en skýrslan var unnin að beiðni forsætisráðuneytisins.

Á tímabilinu 2008 til 2021 var vöxtur nafnlauna langmestur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin, eða um 116 prósent samanborið við 25-48 prósent.

Meiri nafnlaunavöxtur skilaði sér í meiri vexti kaupmáttar yfir tímabilið en hann var 39 prósent hér á landi boriðsaman við um 4-16 prósent á hinum Norðurlöndunum.

Vöxtur kaupmáttar launa á Norðurlöndunum, 2008-2021. Vísitala 2008=100

En Katrín bendir á að kaupmáttarþróunin á Íslandi hafi verið frábrugðin. Kaupmáttur launa dróst saman frá 2008 til 2010 en tók þá að vaxa hraðar en á hinum Norðurlöndunum. Ef eingöngu er horft á tímabilið frá 2012 þá er kaupmáttaraukning á Norðurlöndunum á bilinu 2-10 prósent samanborið við 57 prósent á Íslandi.

„Kaupmáttur launa hefur aukist töluvert á yfirstandandi kjarasamningstímabili, en efnahagsumhverfi kjarasamninga býður ekki upp á miklar nafnlaunahækkanir, því hætta er á að þær hverfi í aukinni verðbólgu,“ segir Katrín.

Fram kemur í skýrslunni að aðstæður fyrir kjarasamningagerð hafi sjaldan verið jafnflóknar. Verðbólga fari vaxandi, meðal annars vegna hækkandi hrávöruverðs sem er utan áhrifasviðs Seðlabankans.

Kjarasamningar á Íslandi virðast fastir í viðjum höfrungahlaupsins þar sem alltaf þarf að semja um örlítið meira en síðasti samningur hljóðaði upp á

„Í þessu umhverfi er svigrúm til nafnlaunahækkana takmarkað, því hætt er við að sú hækkun færi að mestu út í verðlag. Verðbólga er mikil og því fyrirsjáanlegt að kaupmáttur launa rýrni. Því er æskilegast í þessari samningalotu að leita leiða til að tryggja kaupmátt þeirra sem verst standa á vinnumarkaði fremur en að leggja áherslu á nafnlaunahækkanir,“ segir Katrín.

Vinna þarf markvisst að því að bæta umgjörð kjarasamninga að sögn Katrínar og setja ramma um launahækkanir sem aðilar skuldbinda sig til að standa við.

„[Það] er mikilvægt að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki á næsta samningstímabili og því er nú tækifæri til að leita annarra leiða til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði og huga að sértækum aðferðum sem snúa ekki síst að þeim er verst standa. Kjarasamningar á Íslandi virðast fastir í viðjum höfrungahlaupsins þar sem alltaf þarf að semja um örlítið meira en síðasti samningur hljóðaði upp á.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×