Innherji

Svig­rúm til launa­hækkana er á þrotum, segir hag­fræðingur for­sætis­ráðu­neytisins

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Arnór Sighvatsson hafði starfað samfleytt í 28 ár hjá Seðlabanka Íslands þegar hann lét af störfum sem aðstoðarseðlabankastjóri haustið 2018.
Arnór Sighvatsson hafði starfað samfleytt í 28 ár hjá Seðlabanka Íslands þegar hann lét af störfum sem aðstoðarseðlabankastjóri haustið 2018.

Svigrúmið sem myndaðist fyrir launahækkanir á árunum eftir fjármálahrunið, einkum vegna uppgangs ferðaþjónustu og lítillar alþjóðlegrar verðbólgu, er á þrotum og ólíklegt er að aðstæður verði jafnhagfelldar í bráð. Þetta skrifar Arnór Sighvatsson, hagfræðingur hjá forsætisráðuneytinu og fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, í greinargerð sem var unnin að beiðni þjóðhagsráðs.

Í greinargerðinni rekur Arnór að allt því að ferðamannabylgjan hófst árið 2014 og til ársins 2018 hafi hækkandi gengi krónunnar, lágt verðlag innfluttra hráefna og almennt lítil erlend verðbólga vegið á mótum áhrifum aukins launakostnaðar. Mikilla launahækkana gætti því mun minna í almennu verðlagi en ætla mátti.

„Ferðamannabylgjan og viðskiptakjarabati leiddi til gengishækkunar sem ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu varð til þess að laun gátu hækkað verulega án þess að það hefði sýnileg áhrif á innlenda verðbólgu,“ skrifar hann.

„Ólíklegt er að slíkar aðstæður endurtaki sig í bráð, eða í jafnríkum mæli. Þvert á móti gætir aukinnar erlendrar verðbólgu sem leggjast mun á sömu sveif og innlendar kostnaðarhækkanir.“

Í upphafi tímabilsins var launahlutfall enn undir meðallagi eftir að hafa fallið í kjölfar fjármálahrunsins og raungengi var lágt. Skuldir hins opinbera höfðu stórlækkað og einnig einkageirans.

Þetta svigrúm er nú á þrotum og erlendi kostnaðarliðir sem áður lækkuðu til mótvægis við aukinn innlendan kostnað eru nú sjálfstæður verðbólguvaldur

„Segja má að árin eftir fjármálahrunið hafi myndast ákveðið svigrúm fyrir launabreytingar eftir að hlutfall launa af verðmætasköpun lækkaði verulega í kjölfar kreppunnar,“ skrifar Arnór en bendir jafnframt á að launahlutfallið hafi færst upp í eða yfir langtímameðaltal á síðustu árum.

„Þetta svigrúm er nú á þrotum og erlendi kostnaðarliðir sem áður lækkuðu til mótvægis við aukinn innlendan kostnað eru nú sjálfstæður verðbólguvaldur.“

Launabreytingar í næstu kjarasamningalotu verða, að hans sögn, að taka mið af því að hinar hagfelldu aðstæður séu ekki lengur fyrir hendi. 

„Verði það gert má binda vonir við að hægt verði að varðveita bæði ytra og innra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og verja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem undirritaðir verða.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.