Innherji

Ríkið þynnti aðra hlut­hafa í Vaðla­heiðar­göngum og lengdi láns­tíma til 2057

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Veruleg umferðaraukning hefur verið á fyrstu 5 mánuðum ársins 2022 samanborið við árið 2021.
Veruleg umferðaraukning hefur verið á fyrstu 5 mánuðum ársins 2022 samanborið við árið 2021. Mynd/Vaðlaheiðargöng

Fjárhagsleg endurskipulagning Vaðlaheiðarganga fól í sér að ríkissjóður skuldbreytti 5 milljörðum af 20 milljarða króna láni í hlutafé og þynnti aðra hluthafa í göngunum „verulega“ ásamt því að framlengja lokagjalddaga lánsins til ársins 2057. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Vaðlaheiðarganga.

Í þeim tilgangi að létta á skuldum Vaðlaheiðarganga, sem námu alls 19,9 milljörðum króna í lok árs 2021, hefur verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu í rúmlega tvö ár. Á þessu tímabili hefur ríkissjóður, lánveitandi Vaðlaheiðarganga, frestað innheimtuaðgerðum.

Í júní síðastliðnum var skrifað undir viðauka við lánssamninga þar sem kveðið er á um framlengingu á lokagjalddaga til 15. febrúar 2057, breytt vaxtakjör auk þess sem höfuðstóll lánanna er nú verðtryggður og bundinn vísitölu neysluverðs. Samhliða því skuldbreytir ríkissjóður fimm milljörðum króna af eftirstöðvum lánsins í nýtt hlutafé í göngunum.

Eignarhald Vaðlaheiðarganga er tvískipt. Fyrir endurskipulagninguna fór ríkissjóður fer með 33 prósenta hlut en Greið leið ehf., sem er í eigu allra sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra og nokkurra fyrirtækja frá landshlutanum, fór með 66 prósenta hlut.

„Ekki er gert ráð fyrir að Greið leið leggi fram viðbótarhlutafé til Vaðlaheiðarganga að sinni, og mun eignarhlutur félagsins í Vaðlaheiðargöngum því að öllu óbreyttu þynnast verulega á árinu 2022 í prósentum talið,“ segir í ársreikningi Greiðrar leiðar. 

Fyrir skuldbreytinguna nam heildarhlutafé Vaðlaheiðarganga 600 milljónum króna að nafnvirði.

Akureyrarbær er stærsti hluthafi Greiðrar leiðar með rétt tæpan 50 prósenta hlut en aðrir hluthafar með meira en 10 prósenta hlut eru KEA, Útgerðarfélag Akureyringa og Þingeyjarsveit.

Í umfjöllun Innherja frá því í janúar kom fram að unnið væri eftir þeirri útfærslu að ríkissjóður yrði eigandi að miklum meirihluta hlutafjár eftir skuldbreytinguna, eða líkast til í kringum 90 prósentum.

Þung fjármagnsgjöld breyta rekstrarhagnaði í stórt tap

Rekstrarhagnaður ársins nam 218 milljón króna en fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1.102 milljónir króna og voru göngin því rekin með 884 milljóna króna tapi á árinu 2021. Bókfært eigið fé félagsins var neikvætt um nærri 1.700 milljónir í lok ársins.

Áhrif heimsfaraldursins á félagið hafa verið veruleg og komið fyrst og fremst fram í samdrætti tekna félagsins vegna sölu á veggjaldi um Vaðlaheiðargöng sem lækkuðu um 27 prósent á milli áranna 2019 og 2020. Tekjurnar námu 600 milljónum króna í fyrra samanborið við 680 milljónir á árinu 2019.

Að mati stjórnenda félagsins, að því er kemur fram í skýrslu stjórnar, munu áhrif faraldursins hvað varðar umferð um göngin fara minnkandi á árinu 2022 og horft til þess að umferð hefur aukist umtalsvert á milli áranna 2021 og 2022.

„Veruleg umferðaraukning hefur verið á fyrstu 5 mánuðum ársins 2022 samanborið við árið 2021 auk þess sem spár um fjölda erlendra ferðamanna til Íslands samanborið við fyrra ár gefa vísbendingu um verulega umferðaraukningu vegna þess, þegar líður tekur á sumarið og inná haustið,“ segir enn fremur í ársreikningi Vaðlaheiðarganga.

Ófyrirséðar tafir á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng höfðu í för með sér mikla kostnaðaraukningu, í formi framkvæmdakostnaðar og fjármagnskostnaðar, frá því sem upphaflega var áætlað. Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 8.730 milljónir króna á verðlagi ársins 2011 en þegar upp var staðið kostuðu göngin um 17 milljarða króna sem fengust í formi láns frá ríkissjóði.

Þá urðu tafirnar til þess að tekjuöflun félagsins í formi innheimtu veggjalda hófst rúmlega tveimur árum síðar en áætlað var. Til stóð að innheimta veggjalda hæfist á haustmánuðum 2016 en göngin voru ekki opnuð fyrr en í byrjun árs 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×