Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallar. Fundurinn verður haldinn þann 31. ágúst næstkomandi í höfuðstöðvum félagsins að Suðurlandsbraut.
Í tilkynningunni segir boðað sé til fundarins að kröfu Gavia Invest, en fyrirtækið fer með atkvæðisrétt að 16,08 prósent af heildarhlutafé félagsins.
Krefst Gavia Invest ehf. að á fundinum verði tekin fyrir tillaga um að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin.
Telur Gavia Invest ehf. „að vegna umtalsverðra breytinga sem orðið hafa á hluthafahópi Sýnar hf. nú nýverið sé rétt að umboð stjórnar félagsins verði endurnýjað og að stjórnarkjör fari fram,“ líkt og það er orðað í tilkynningunni.
Á dagskrá fundarins er tillaga Gavia Invest um að bundinn verði endir á kjörtímabil sitjandi stjórnar Sýnar.
Verði sú tillaga samþykkt fer fram stjórnarkjör, auk þess sem að dagskrárliðurinn „önnur mál“ er einnig á dagskrá.
Miklar breytingar hafa orðið á eignarhaldi Sýnar að undanförnu eftir að Heiðar Guðjónsson, þáverandi forstjóri Sýnar, seldi 12,7 prósent eignarhlut sinn í félaginu til Gavia Invest og lét af störfum.
Gavia Invest bætti sig við hlutum og á nú 16,1 prósent í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu.
Jón Skaftason, sem er í forsvari fyrir Gavia Invest og var um árabil framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, sagði í samtali við Innherja á dögunum að fjárfestahópurinn hefði „fylgst lengi“ með Sýn. „Við ætlum okkur að hafa virka aðkomu að rekstri félagsins og munum beita okkur fyrir aukinni verðmætasköpun í þágu allra hluthafa Sýnar.“
Vísir er í eigu Sýnar.