Handbolti

Arnór Atla tekur við liði TTH Holstebro

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arnór ásamt Soren Hansen, sem verður aðstoðarmaður hans.
Arnór ásamt Soren Hansen, sem verður aðstoðarmaður hans. TTH Holstebro

Arnór Atlason mun taka við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins TTH Holstebro næsta sumar.

Danska félagið segir frá ráðningunni á heimasíðu sinni í dag en Arnór er núverandi aðstoðarþjálfari bikarmeistara Álaborgar og mun halda því starfi áfram út komandi keppnistímabil en taka við stjórnartaumunum hjá Holstebro næsta sumar.

Núverandi aðalþjálfari Holstebro, Soren Hansen, mun stíga til hliðar og verða aðstoðarmaður Arnórs.

Arnór átti farsælan leikmannaferil í Danmörku og víðar en hann lék með Magdeburg, FCK, AG, Flensburg, St. Raphael og Álaborg áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun.

Þetta verður fyrsta aðalþjálfarastarf Arnórs hjá félagsliði en hann sinnir einnig starfi þjálfara danska U21 landsliðsins um þessar mundir og hefur gert undanfarin ár.

TTH Holstebro var í miklum vandræðum í deildinni á síðustu leiktíð og tryggði sætið sitt meðal þeirra bestu með sigri í umspili en í tilkynningu félagsins segir að Arnóri sé ætlað að skipa Holstebro sess meðal fjögurra bestu liða landsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.