Viðskipti innlent

„Þá erum við í vondum málum, ís­lenskt sam­fé­lag“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Oddný telur að orðspor Íslands velti ekki á því hvort kaup Ardian á Mílu nái fram að ganga.
Oddný telur að orðspor Íslands velti ekki á því hvort kaup Ardian á Mílu nái fram að ganga. Vísir/Vilhelm

Þingmaður segir það mun skaðlegra fyrir orðspor Íslands ef slegið yrði af kröfum um eftirlit með samkeppni, heldur en ef kaup fransks fjárfestingasjóðs á Mílu ná ekki fram að ganga. Samkeppniseftirlitið verði að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. 

Samkeppniseftirlitið hefur gert athugasemdir við ákveðna þætti í samningi franska fjárfestingasjóðsins Ardian við Símann um kaupin á Mílu. Áhyggjur eftirlitsins snúa að samkomulagi um viðskipti Mílu við Símann til margra ára eftir söluna.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að ef salan á Mílu nái ekki fram að ganga kunni það að hafa neikvæð áhrif á orðspor Íslands sem álitlegur fjárfestingakostur. Þessu er Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ósammála. Mestu máli skipti að Samkeppniseftirlitið geti sinnt sínu lögbundna hlutverki, sem sé að vinna gegn fákeppni og samkeppnishömlum.

„Og það er auðvitað mjög skiljanlegt að fjárfestingasjóðurinn vilji láta fjárfestinguna borga sig, en það er hins vegar hlutverk Samkeppniseftirlitsins að gæta hag okkar og samfélagsins og vinna gegn hugsanlegum slæmum afleiðingum,“ segir Oddný í samtali við fréttastofu.

Míla sé þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki.

„Ég hef meiri áhyggjur af orðspori Íslendinga ef Samkeppniseftirlitið og viðeigandi stofnanir samfélagsins virka ekki eins og lög gera ráð fyrir. Sem betur fer erum við með slíkar stofnanir og þær eiga að sinna skyldum sínum, annars væri orðspor okkar sannarlega í hættu.

Það sé von hennar að sem fæstir ráðamenn meti orðspor Íslands meðal fjárfesta meira heldur kröfur um eftirlit með samkeppni.

„Ef það er svona almenn skoðun og álit innan ríkisstjórnarflokkanna að við eigum að slá af kröfum um samkeppni og eftirlit til þess að þóknast fjárfestingasjóðum, þá erum við í vondum málum, íslenskt samfélag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×