Klinkið

Hvað mun það kosta Símann að fá blessun SKE fyrir sölunni á Mílu?

Hörður Ægisson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, en íslenska félagið og Ardian freista þess nú að fá Samkeppniseftirlitið til að samþykkja 78 milljarða sölu Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins. 
Orri Hauksson, forstjóri Símans, en íslenska félagið og Ardian freista þess nú að fá Samkeppniseftirlitið til að samþykkja 78 milljarða sölu Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins. 

Þegar Síminn tilkynnti um samkomulag um sölu á dótturfélagi sínu Mílu í lok október í fyrra til franska sjóðastýringarfélagsins Ardian voru það stór tíðindi fyrir neytendur sem sjá nú fram á meiri samkeppni á bæði heildsölu- og smásölumarkaði fjarskipta – og ekki síður munu viðskiptin flýta fyrir nauðsynlegri uppbyggingu fjarskiptainnviða um allt land. Fyrir flestum eru þessi sannindi augljós og óumdeild.

Flestar kvartanir vegna starfshátta Símans um langt árabil hafa snúið að lóðréttu eignarhaldi fjarskiptarisans á Mílu. Keppinautarnir Sýn og Nova hafa þannig gagnrýnt að Síminn geti í krafti eignarhaldsins á Mílu, sem á tengingar í nær öllu hús landsins, boðið inngöngutilboð til nýrra viðskiptavina sem önnur fjarskiptafyrirtæki geta ekki keppt við. Þetta breytist þegar slitið er á eignatengslin og Míla hverfur úr samstæðunni og verður sjálfstætt heildsölufyrirtæki. Öll fjarskiptafélögin – Síminn, Sýn og Nova – eiga þá að sitja við sama borð og geta nýtt sér þjónustu Mílu á sömu forsendum.

Níu mánuðum síðar eru viðskiptin hins vegar enn ófrágengin og ljóst að þau munu ekki klárast fyrr en í fyrsta lagi seint í næsta mánuði nú þegar Ardian hefur óskað eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið (SKE) til að freista þess að ljúka samrunanum með ásættanlegum skilyrðum að mati eftirlitsins. Ekki er víst að það muni ganga mjög hratt og greiðlega fyrir sig.

Hjá Símanum gætir eðlilega nokkurs titrings yfir andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins enda eru miklir hagsmunir í húfi.

Það kom tæpast að koma mörgum á óvart þegar Samkeppniseftirlitið kynnti Ardian og ráðgjöfum félagsins á fyrsta degi þessa mánaðar niðurstöðu frummats SKE þar sem samrunanum er fundið nánast flest til foráttu og hann talinn að óbreyttu hindra virka samkeppni. Fram að því hafði lítið heyrst frá eftirlitinu í langan tíma sem hefur haft kaupin til rannsóknar allt frá því 8. febrúar síðastliðinn. Til að ná kaupunum í gegnum nálarauga samkeppnisyfirvalda hér á landi þarf Ardian og lögfræðilegir ráðgjafar félagsins því nú að leggja til skilyrði – hversu íþyngjandi mun skýrast á allra næstu vikum – sem taka á þeim atriðum sem fram koma í frummati SKE.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Símans og forstjóri Stoða, stærsta hluthafa félagsins, ætti að minnsta kosti að vera öllu vanur þegar kemur að samskiptum við Samkeppniseftirlitið vegna stórra fyrirtækjaviðskipta. Hann var meðal annars stjórnarmaður í N1 þegar eldsneytisfyrirtækið þurfti að bíða í tæplega eitt ár eftir að fá að lokum samþykktan – með ítarlegum skilyrðum – samruna félagsins við Festi síðla sumars árið 2018. Það sama gæti aftur orðið uppi nú enda þótt auðvitað um sé að ræða afar eðlisólík viðskipti í alla staði.

Franska félagið Ardian er einn stærsti innviðafjárfestirinn í Evrópu og hefur komið að nærri 50 slíkum fjárfestingum – í flestum tilfellum mun stærri en kaupin á Mílu – frá árinu 2005. Þrátt fyrir að sjóðastýringarfyrirtækið sé því öllu vant í samskiptum sínum við samkeppnisyfirvöld víða um Evrópu þá eru stjórnendur Ardian sagðir aldrei hafa upplifað annað eins líkt og í samskiptum sínum við íslenska eftirlitið. Þeir sem þekkja vel til nefna að ráðgjafar og lögmenn Ardian hafi á undanförnum mánuðum þurft að eiga í miklum viðræðum við meðal annars iðnaðarráðuneytið, þjóðaröryggisráð og Fjarskiptastofu vegna viðskiptanna. Hvergi hafi menn hins vegar mætt eins köldu viðmóti og hjá Samkeppniseftirlitinu.

Hjá Símanum gætir eðlilega nokkurs titrings yfir andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins enda eru miklir hagsmunir í húfi. Heildarkaupverðið á Mílu nemur um 78 milljörðum króna – söluhagnaður Símans er áætlaður 46 milljarðar – og því um að ræða eina stærstu erlendu fjárfestinguna sem sést hefur hér á landi á síðari árum. Orri Hauksson, forstjóri Símans, fundaði með Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, vegna stöðunnar sem uppi er komin í lok síðustu viku og þá er lögmannsstofan LOGOS, sem hefur verið ráðgjafi íslenska fjarskiptarisans við söluferlið, sögð hafa kallað eigendur og fulltrúa sína sem hafa komið að málinu til baka úr sumarleyfum nú þegar unnið er baki brotni í kappi við tímann að finna ásættanleg skilyrði til að ljúka kaupunum.

Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins – og Fjarskiptastofu – virðast með öðrum orðum einkum lúta að sjálfbærni á rekstri hins opinbera fyrirtækis Ljósleiðarans, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Um hvað snúast helstu athugasemdir Páls Gunnars og félaga í Samkeppniseftirlitinu við að þessi kaup fari óbreytt í gegn? Helsta áhyggjuefnið snýr að þeim tuttugu ára heildsölusamningi á milli Símans og Mílu sem tekur við afhendingu félagsins til Ardian. Sömu sjónarmið hafa einnig komið fram í umsögn Fjarskiptastofu um samrunann sem telur að samningurinn verði til þess að Míla og Síminn muni bindast of „þéttum böndum“ þannig að Síminn geti í reynd ekki með góðu móti keypt þjónustu af öðrum heildsölufélögum en Mílu til lengri tíma litið. Vegna bindandi og útilokandi áhrifa af einkakaupaákvæðum í samningi Mílu og Símans kunni að skapast einokunarstaða á heildsölumarkaði.

Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins – og Fjarskiptastofu – virðast með öðrum orðum einkum lúta að sjálfbærni á rekstri hins opinbera fyrirtækis Ljósleiðarans, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, ef geta Símans til að kaupa þjónustu af félaginu verður í framhaldinu hverfandi. Sá ótti eftirlitsstofnana kann að koma sumum spánskt fyrir sjónir enda verður illa séð að núverandi eignarsamband Símans og Mílu – sem mun breytast í viðskiptasamband við söluna – verði til þess að Síminn beini viðskiptum sínum í meira mæli en nú er til Ljósleiðarans. 

Þá hljóta margir að spyrja sig hvaða vit er því að vera með opinbert fyrirtæki, sem eykur nú umsvif sín í samkeppni við einkafyrirtæki og lætur sér ekki nægja fjárframlög eigenda Ljósleiðarans heldur sækir til viðbótar fjármagn á markaði, sem viðheldur þeirri stöðu að fjarskiptafélögin eru að byggja upp sín kerfi hvert í sínu horni. Það er vont og rándýrt fyrirkomulag.

Eru líkur á því að upp úr samkomulaginu milli Ardian og Símans muni slitna vegna andmæla Samkeppniseftirlitsins við samrunann? Það verður að teljast nánast útilokað. Spurningin sem eftir situr er hins vegar hversu langt Ardian og Síminn þurfa að ganga í að koma upp með skilyrði sem eru til þess fallin, að mati SKE, að draga úr þeim neikvæðu samkeppnislegu áhrifum sem eftirlitið telur að samruninn hafi í för með sér. Ljóst er að allar verulegar breytingar á heildsölusamningnum, eins og meðal annars ef hann verður styttur eða dregið úr einkakaupaskuldbindingum Símans, munu óhjákvæmilega þýða að Ardian og Síminn þurfa aftur að setjast niður og semja að nýju um kaupverðið – sem gæti þá lækkað nokkuð frá þeim 78 milljarða verðmiða sem áður hefur verið samið um.

Nokkrum dögum eftir að andmælaskjalið frá Samkeppniseftirlitinu vegna kaupanna barst óskaði franski sjóðastýringarrisinn eftir sáttaviðræðum. Ólíklegt er að fyrstu tillögur Ardian til að sníða af þá samkeppnislegu vankanta sem SKE telur að muni leiða af samrunanum að óbreyttu verði þannig að þær kalli á endurskoðun á kaupverðinu. Miðað við þann tón sem heyrist frá Samkeppniseftirlitinu í málinu eru hins vegar ágætis líkur á því að eftirlitið muni að lokum gera kröfu um þess konar breytingar á samningnum. Að öðrum kosti fáist kaupin ekki samþykkt.

Þótt Páll Gunnar sé harður í horn að taka veit hann sem er að hann undir talsverðum þrýstingi, ekki aðeins af hálfu kaupanda og seljenda í viðskiptunum, heldur einnig frá stjórnvöldum sem eru áfram um að samruninn klárist en Ardian hefur samþykkt að undirgangast ríkar kvaðir sem eiga að tryggja að eignarhald þess á Mílu samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands.

Til lengri tíma litið ætti það hins vegar að vera sérstakt áhyggjuefni að jafn stórt og virt evrópskt sjóðastýringarfyrirtæki, sem hefur lagt sig fram um það frá upphafi að viðskiptin séu gerð í sátt við stjórnvöld og alla haghafa á Íslandi, upplifi umhverfið hér á landi fjandsamlegt í garð erlendra fjárfesta – fyrst og fremst vegna samskipta við eina opinbera stofnun. Við það má ekki lengur una.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir samþykkt að leggja Mílu til meira fé til að hraða uppbyggingu innviða

Forsvarsmenn íslensku lífeyrissjóðanna, sem eru að kaupa samanlagt um fimmtungshlut í Mílu, dótturfélagi Símans, eru sammála væntanlegum meirihlutaeigenda fjarskiptafyrirtækisins – franska fjárfestingarsjóðnum Ardian – um að leggja því til meira fjármagn á komandi árum til að hraða uppbyggingu á 5G og ljósleiðarakerfi félagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×