Innherji

SÍ situr á 20 milljarða króna skulda­bréfa­safni eftir magn­bundna í­hlutun

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir um 22,6 milljarða króna frá því að peningastefnunefnd samþykkti heimild bankans til magnbundinnar íhlutunar í byrjun kórónukreppunnar. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Innherja um umfang skuldabréfakaupa bankans.

Peningastefnunefnd veitti Seðlabankanum heimild til magnbundinnar íhlutunar, þ.e. beinna kaupa á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði, í mars 2020. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hafði farið hækkandi og horfði nefndin meðal annars til þess, að því er kom fram í fundargerð, að með magnbundinni íhlutun væri hægt að koma í veg fyrir hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði í kjölfar aukinnar útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfum.

Einnig ræddi nefndin um mögulega ókosti við að beita þessu stjórntæki, svo sem að aukið peningamagn í umferð gæti leitt til meiri verðbólgu en ella. Á þessum tímapunkti taldi peningsstefnunefnd þó að hættan á verðbólgu væri ekki mikil í ljósi þess að töluverður slaki væri í þjóðarbúskapnum, og útlán og peningamagn í umferð væru að dragast saman.

Heildarfjárhæð skuldabréfakaupa Seðlabankans gat samkvæmt heimildinni numið allt að 150 milljörðum króna, eða um 5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Bankinn nýtti því aðeins um 15 prósent af heimildinni og hætti formlega að leggja fram kauptilboð í júlí 2021.

Skuldabréfin eru bókfærð á efnahagsreikningi Seðlabankans. Í svari bankans við fyrirspurn Innherja kemur fram að engin skuldabréf hafi hingað til verið seld og engin áætlun um slíkt hafi verið birt.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabanki fjármálastöðugleika, sagði í nóvember 2020 að Seðlabanki Íslands yrði að hafa í huga að erfitt gæti reynst að vinda ofan af magnbundinni íhlutun þegar að því kæmi.

„Það þýðir ekki bara að stíga inn í hringinn heldur verður maður líka að hugsa um hvernig maður stígur út úr hringnum,“ sagði Gunnar.  

Skuldabréfasafn bankans, um 20 milljarðar króna að nafnverði, er ekki nema 0,6 prósent af vergri landsframleiðslu sem var um 3.233 milljarðar króna á síðasta ári. Til samanburðar nema eignir bandaríska Seðlabankans um 37 prósent af landsframleiðslu og í Evrópu er hlutfallið um 63 prósent. Báðar stofnanir hafa beitt sér af miklum þunga á skuldabréfamarkaði frá því að kórónuveiran kom til sögunnar og áform um að vinda ofan af eignasafninu, sem þýðir að peningar eru teknir úr umferð, hefur að undanförnu haft mikil áhrif á verðbréfamarkaði. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.