Umræðan

Verðlagning Vísis við samruna inn í Síldarvinnslunna

Þórður Gunnarsson skrifar

Ein stærstu viðskipti síðustu ára innan íslensks sjávarútvegs voru tilkynnt um síðastliðna helgi. Eigendur Vísis hafa náð samkomulagi við Síldarvinnsluna um að fyrirtækin renni saman. Heildarvirði viðskiptanna er 31 milljarður króna að meðtöldum yfirteknum skuldum, en eigendur Vísis fá um 20 milljarða fyrir hlutafé fyrirtækisins.

Kaupverðið verður að stærstum hluta greitt með hlutabréfum í Síldarvinnslunni, en til að geta staðið skil á skattgreiðslum vegna viðskiptanna fá eigendur Vísis hluta kaupverðsins greidda með reiðufé. Ætla má að þær skattgreiðslur muni nema milljörðum króna.

Verðlagning sjávarútvegsfyrirtækja lýtur ekki sömu lögmálum og hefðbundinna rekstrarfélaga - einna helst vegna óstöðugrar afkomu. Sveiflukenndur rekstur í sjávarútvegi á sér ýmsar skýringar. Þar má nefna náttúrulegar sveiflur í stærð fiskistofna, stjórnvaldsákvarðanir um breytta úthlutun aflaheimilda eða skattlagningu, auk breytinga á aðfangakostnaði og afurðaverði.

Sé litið til 20 milljarða kaupverðs hlutafjár Vísis og nýjustu afkomutalna fyrirtækisins mætti segja sem svo að kaupverð sé í hærra lagi. Hagnaður Vísis á árinu 2021 var um 800 milljónir króna. Kaupverð hlutafjár er því um það bil 25 sinnum hærra en hagnaður síðasta árs (V/H-hlutfall 25).

Til samanburðar eru V/H-hlutföll Síldarvinnslunnar og Brims, sem bæði eru skráð á markað, tæplega 14. Bæði fyrirtæki eru með fjölbreyttari og umfangsmeiri rekstur en Vísir. Til að mynda eru bæði fyrirtæki ólíkt Vísi með kröftuga starfsemi í uppsjávarveiðum samhliða bolfiskveiðum, en uppsjávargeirinn er af ýmsum ástæðum arðbærari en bolfisksókn þessa dagana.

Því er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að kaupverð Vísis hafi verið töluvert yfir rekstrarvirði fyrirtækisins. Ef yfirtakan á Vísi hefði farið fram á sama V/H-margfaldara og þeir sem sjást í Kauphöllinni um þessar mundir hefði verðmiði hlutafjár Vísis verið nær 11 milljörðum.

Sé litið til þeirra aflaheimilda sem færast nú á bækur Síldarvinnslunnar horfir málið hins vegar öðruvísi við. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa komið fram í fréttum fylgja um 9.500 tonn af þorskkvóta með í kaupunum á rekstri og skipastól Vísis. Nýleg viðskipti með aflaheimildir þorsks benda til þess að kaupverð liggi í kringum 4000 krónur fyrir kílóið.

Aflamark Vísis í þorski eitt og sér er því allt að 38 milljarða virði - eru þá ótaldar aflaheimildir í öðrum tegundum sem eru skráðar á skip Vísis. Hér verður þó að taka fram að vart er mögulegt að selja ríflega 5 prósent aflamarks í þorski í einu lagi á jaðarverði sem tíðkast í viðskiptum með aflaheimildir, þar sem öllu jöfnu er um að ræða miklu minna magn, sem skiptir um hendur hverju sinni.

Ef til vill er hér komin uppskrift af verðlagningu óskráðra sjávarútvegsfyrirtækja í þeirri samrunahrinu sem þarf að eiga sér stað á næstu árum, svo að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti staðist erlendri samkeppni snúning.

Því má segja að forsvarsmenn Vísis og Síldarvinnslunnar hafi náð lendingu um verð sem tekur bæði tillit til rekstrarvirðis fyrirtækisins, sem er töluvert lægra en upplausnarvirði aflaheimilda Vísis, og verðmætis aflaheimilda.

Heildarvirði viðskiptanna er 31 milljarður. Sú tala er í miðju verðbilsins 11 til 50 milljarðar króna, sem er skalinn frá hreinu rekstrarvirði (miðað við núverandi kennitölur sjávarútvegsfyrirtækja á markaði), til hámarksvirðis aflaheimilda Vísis.

Ef til vill er hér komin uppskrift að verðlagningu óskráðra sjávarútvegsfyrirtækja í þeirri samrunahrinu sem þarf að eiga sér stað á næstu árum, svo að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti staðist erlendri samkeppni snúning.

Höfundur er hagfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×