Innherji

SKE segir Ardian að kaupin á Mílu fari ekki skilyrðislaust í gegn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Tuttugu ára heildsölusamningur Símans og Mílu er eitt helsta áhyggjuefni Samkeppniseftirlitsins. 
Tuttugu ára heildsölusamningur Símans og Mílu er eitt helsta áhyggjuefni Samkeppniseftirlitsins.  Míla

Samkeppniseftirlitið hefur gert fulltrúum franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian grein fyrir því að kaup fyrirtækisins á Mílu verði sett skilyrði til að draga úr þeim neikvæðu samkeppnislegu áhrifum sem eftirlitsstofnunin telur að kaupin muni hafa í för með sér. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. 

Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins sem stofnunin kynnti fulltrúum Ardian fyrir skemmstu munu kaupin á Mílu hindra virka samkeppni. Vilji Ardian ná samrunanum í gegn þarf fyrirtækið að leggja til skilyrði sem taka á þeim atriðum sem fram koma í frummatinu.

Eftir því sem Innherji kemst næst er helsta áhyggjuefnið í frummati Samkeppniseftirlitsins tuttugu ára heildsölusamningur á milli Símans og Mílu sem tekur gildi við afhendingu félagsins til Ardian.

Álíka sjónarmið komu fram í umsögn Fjarskiptastofu um samrunann. Heildsölusamningurinn bindur Mílu og Símann „þéttum böndum“ að mati Fjarskiptastofu sem telur jafnframt að Síminn geti ekki með góðu móti keypt þjónustu af öðrum heildsölufyrirtækjum en Mílu til langs tíma.

„Telur Fjarskiptastofa líklegt að þjónustusamningur Mílu og Símanskunni að hafa í för með sér ólögmæt einkakaupaákvæði sem fara gegn samkeppnis lögum. Bregðast þarf við framangreindu til að ekki skapist einokunarstaða á heildsölumarkaði hér á landi vegna bindandi og útilokandi áhrifa af einkakaupaákvæðum í þjónustusamningi Mílu og Símans,“ sagði í umsögn Fjarskiptastofu.

Þá taldi Fjarskiptastofa að heildsölusamningurinn gerði það að verkum að geta Símans til að kaupa heildsöluþjónustu af Ljósleiðaranum, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, kynni að verða lítil sem engin. Það gæti leitt til þess að rekstur Ljósleiðarans yrði ekki lengur sjálfbær sem myndi draga úr samkeppni á heildsölumarkaði.

Forstjóri Símans, gagnrýndi umsögn Fjarskiptastofu í viðtali við Innherja í byrjun apríl.

„Síminn hefur verslað megnið af sínum nettengingum af Mílu frá upphafi og hefur aðeins nýlega fengið aðgang að kerfi Ljósleiðarans. Ef það er galli að mati Fjarskiptastofu að Síminn versli of mikið af Mílu þá magnast sá meinti galli klárlega ekki upp við söluna, nema síður sé, enda þá komið hreinræktað viðskiptasamband í stað eignarsambands í ofanálag,“ sagði Orri. 

Ardian skrifaði undir samkomulag um kaup á Mílu fyrir 78 milljarða í október í fyrra en fullnægjandi samruntilkynning barst til Samkeppniseftirlitsins 10. febrúar síðastliðinn. Samkeppniseftirlitið er núna með til rannsóknar samkeppnisleg áhrif samruna Ardian og Mílu í svonefndum fasa II en frestur til að ljúka honum er til 27. júlí næstkomandi.

Franski fjárfestingasjóðurinn bauð íslenskum lífeyrissjóðum sem kunnugt er að koma að viðskiptunum með því að kaupa samanlagt fimmtungshlut á sömu kjörum og Ardian. Hópur íslenskra lífeyrissjóða kaupir slíkan hlut í Mílu fyrir vel yfir fimmtán milljarða króna, bæði í eigin nafni og eins í gegnum nýjan framtakssjóð í rekstri Summu sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum. Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins, að Gildi undanskildum, koma að kaupunum.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir færast nær kaupum á fimmtungshlut í Mílu

Hópur íslenskra lífeyrissjóða er langt kominn með að ganga frá kaupum á um tuttugu prósenta hlut í Mílu, dótturfélagi Símans, fyrir vel yfir fimmtán milljarða króna, bæði í eigin nafni og eins í gegnum nýjan framtakssjóð í rekstri Summu sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×