Bandaríkjamenn tryggðu sér sætið með því að vinna 33-26 sigur á Grænlandi í lokaleiknum í úrslitakeppni þjóða frá Norður Ameríku. Þetta var hreinn úrslitaleikur um sætið.
Sam Hoddersen, sem spilar með Luigi í Svíþjóð, var markhæstur í bandaríska landsliðinu með átta mörk en þeir Abou Fofana, sem spilar í Hollandi, og Ian Hueter, sem spilar með Bayer Dormagen í Þýskalandi, skoruðu báðir sjö mörk.
Svíinn Robert Hedin þjálfar bandaríska landsliðið en hann var landsliðsþjálfari Norðmanna í sex ár frá 2008 til 2014.
Bandaríska handboltalandsliðið var síðast með á HM þegar mótið fór fram í Frakklandi árið 2001.
Hedin hefur verið þjálfari bandaríska landsliðsins frá árinu 2018.
Hann var líka þjálfari norska félagsins Nøtterøy Håndball Elite en hætti nýverið þegar þrjú ár voru eftir af fimm ára samningi hans vegna fjárhagsvandræða félagsins.
Bnadaríska landsliðið gæti lent í riðli með íslenska landsliðinu en dregið verður í riðla í úrslitakeppninni í Katowice í Póllandi á morgun.