Innherji

Lítil sem engin framvinda í inn­viða­fjár­festingum líf­eyris­sjóða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lífeyrissjóðir hafa um árabil sýnt áhuga á því að fjárfesta í innviðum. 
Lífeyrissjóðir hafa um árabil sýnt áhuga á því að fjárfesta í innviðum.  vísir/vilhelm

Þrátt fyrir að lífeyrissjóðir hafi sýnt áhuga á fjármögnun innviðaverkefna og haldið úti sérstökum sjóði fyrir innviðafjárfestingar í sjö ár hefur lítið sem ekkert gerst í þeim efnum. Hlutdeild sjóðanna í innviðum landsins er enn jafnlítil og hún var árið 2003. Þetta kom fram í máli Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs, á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða.

„Sorgleg staðreynd er að undanfarin sjö ár hafa lífeyrissjóðir haldið úti öflugum sjóði til innviðafjárfestinga og viðrað áhuga á að taka þátt í slíkum verkefnum. Lítið sem ekkert gerist,“ sagði Ólafur og rifjaði síðan upp að Hrafn Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri LL, hefði fengið hann til að ræða um þetta mál á fundi hjá samtökunum árið 2003.

„Mér reiknaðist þá til að hlutur lífeyrissjóða í innviðum landsmanna væri innan við 1% og nú, tæplega tveimur áratugum síðar, er hann enn um 1%!“

Undanfarin ár hefur umræða um aðkomu lífeyrissjóða að innviðafjárfestingum farið vaxandi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er rætt um að fjölga eigi ávöxtunarmöguleikum og Landssamtök lífeyrissjóða munu gefa út skýrslu um innviðafjárfestingar í haust.

Að mati samtakanna er augljós ávinningur af aðkomu sjóðanna. „Forystusveitir lífeyrissjóða eru og hafa verið opnar fyrir því að koma að innviðauppbyggingu samfélagsins. Þannig færi saman að flýta nauðsynlegum og ávaxta eignir lífeyrissjóða,“ segir í skýrslu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, sem var kynnt á ársfundi samtakanna í lok maí.

„Við höfum vel heppnað fordæmi frá því þegar lífeyrissjóðir komu að fjármögnun Hvalfjarðarganga seint á öldinni sem leið. Nærtækt er að velta fyrir sér hvort Sundabraut sé ekki verkefni sem lífeyrissjóðir geti tekið að sér að fjármagna og halda utan um að einhverju leyti.“

Mér reiknaðist þá til að hlutur lífeyrissjóða í innviðum landsmanna væri innan við 1% og nú, tæplega tveimur áratugum síðar, er hann enn um 1%!

Stjórnin bendir jafnframt á að fjárfestingar í samgöngukerfinu séu jafnan til þess fallnar að greiða leiðir og stytta þær sem aftur stuðlar að því að minnka kolefnisspor bílaumferðarinnar. Umhverfisáhrif samgöngumannvirkja séu jákvæð sem því nemur.

„Verkefni í samgöngukerfinu eru mörg hver þess eðlis að þau draga úr losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið og falla því vel að áherslum um umhverfisvænar lausnir.“

Þá telur stjórnin að jafnframt sé auðvelt að finna verkefni af þessu tagi í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og víðar.

Ólafur hjá Birtu benti jafnframt á að uppsöfnuð fjárfestingaþörf, um 420 milljarðar króna samkvæmt Samtökum iðnaðarins, væri meiri en stjórnvöld réðu við.

„Í ljósi mikilvægis innviða fyrir hagvöxt, nýsköpun og framleiðniþróun á Íslandi telst það jafn mikið hagsmunamál fyrir haghafa lífeyrissjóða eins og aðra að leitað verði allra leiða til að byggja upp innviði,“ sagði Ólafur.

Þá segir hann mikilvægt að skilgreina betur hugtakið innviði á Íslandi. „Marka þarf stefnu um þá innviði sem stjórnvöld vilja byggja upp án aðkomu einkageirans, blanda eignarhaldi með einkageiranum og eða að fela þeim að fullu rekstur samkeppnisinnviða.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.