Innherji

Fjárfestar selt sig út úr sjóðum fyrir um sjö milljarða á þremur mánuðum

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um tuttugu prósent frá áramótum.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um tuttugu prósent frá áramótum. VÍSIR/VILHELM

Nær stöðugt útflæði hefur verið úr innlendum hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum samtímis miklum óróa og verðhruni á verðbréfamörkuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári og vaxtahækkunum beggja vegna Atlantshafsins vegna hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Innlausnir fjárfesta úr slíkum sjóðum á síðustu þremur mánuðum – mars, apríl og maí – nema samanlagt rúmlega sjö milljörðum króna. Frá áramótum nemur uppsafnað útflæði úr sjóðunum hins vegar um 4,2 milljörðum króna.

Eignir hlutabréfasjóða hafa þannig skroppið saman um meira en tuttugu milljarða á fyrstu fimm mánuðum ársins, bæði vegna verðlækkana á mörkuðum og eins innlausna fjárfesta, og námu rúmlega 140 milljörðum króna í lok maí, að því er fram kom í nýjum tölum frá Seðlabankanum í vikunni.

Í síðasta mánuði voru innlausnir hlutdeildarskírteinishafa í hlutabréfasjóðum um 2,1 milljarði krónum meiri en sem nam fjárfestingum þeirra í slíkum sjóðum. Það sama átti við um um blandaða sjóði en þar var nettó útflæðið um 1.440 milljónir króna.

Þá var einnig útflæði úr skuldabréfasjóðum – aðeins í annað sinn frá því um haustið 2019 sem það gerist – upp á rúmlega 1,8 milljarða króna. Aðalvísitala skuldabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað um liðlega tvö prósent frá áramótum.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa lækkað skarpt síðustu vikur og mánuði vegna ótta fjárfesta um versnandi hagvaxtarhorfur samtímis því að helstu seðlabankar heimsins þurfa að hækka vexti hraðar og meira en áður var búist við til að stemma stigu við ört hækkandi verðbólgu. Íslenski markaðurinn hefur ekki farið varhluta af þessari þróun og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um tæplega 11 prósent í maí en frá áramótum hefur hún fallið um meira en fimmtung.

Eignir hlutabréfasjóða og blandaðra sjóða drógust saman í liðnum mánuði samtímis verðfalli á mörkuðum – úr samtals 231 milljörðum í 212 milljarða króna – en eignarhald almennings á hlutdeildarskírteinum í slíkum sjóðum nemur tæplega helmingi af eignum sjóðanna.

Ef undan eru skildir síðustu fjórir mánuði var nær stöðugt innflæði í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í að verða um tvö ár og á árinu 2021 liðlega fjórfaldaðist það frá fyrra ári. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru um 58 milljarðar í fyrra.

Mogens Mogensen, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Íslandssjóðum, sagði við Innherja í síðasta mánuði að það væri fátt sem benti til þess að stórir innlendir fjárfestar, eins og lífeyrissjóðir og hlutabréfasjóðir, væru að selja mikið af eignum sínum á hlutabréfamarkaði samtímis þeim verðlækkunum hafa verið.

Benti hann á að það sé búið að reynast erfitt fyrir fjárfesta að ná sér í jákvæða raunávöxtun í umhverfi hárrar verðbólgu og hækkandi vaxta síðustu mánuði og því útlit fyrir að þeir muni áfram líta til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa.

Í þessum mánuði voru þrjú félög – Ölgerðin, Nova og Alvotech – skráð á markað í Kauphöllinni.


Tengdar fréttir

Fjárfestar munu enn líta til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa, segir sjóðstjóri

Það er fátt sem bendir til þess að stórir innlendir fjárfestar, eins og lífeyrissjóðir og hlutabréfasjóðir, séu að selja mikið af eignum sínum á hlutabréfamarkaði í þeim verðlækkunum sem hafa orðið að undanförnu. Það hefur reynst fjárfestum erfitt að ná sér í jákvæða raunávöxtun í umhverfi hárrar verðbólgu og hækkandi vaxta síðustu mánuði og því útlit fyrir að þeir muni áfram líta til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×