Innlent

Met­fjöldi braut­skráðra frá Há­skóla ís­lands

Árni Sæberg skrifar
Háskóli Íslands kveður 2.594 nemendur sína við hátíðlega athöfn í dag.
Háskóli Íslands kveður 2.594 nemendur sína við hátíðlega athöfn í dag. Vísir/Vilhelm

Háskóli Íslands brautskráir 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi í dag, aldrei hafa fleiri verið brautskráðið. Í fyrsta skipti í tvö ár munu vinir og vandamenn brautskráðra mega mæta á athöfnina en hún verður einnig í beinni útsendingu hér á Vísi.

Brautskráningarathafnir verða tvær og fara fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 653 frá Félagsvísindasviði og 311 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Beina útsendingu frá fyrri athöfninni má sjá í spilaranum hér að neðan.

Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 578 frá Heilbrigðisvísindasviði, 279 frá Hugvísindasviði og 773 frá Menntavísindasviði.

Beina útsendingu frá seinni athöfninni má sjá í spilaranum hér að neðan.

Í fyrra var slegið met, með miklum mun, í fjölda brautskráðra þegar 2.548 voru brautskráð en í ár eru brautskráðir 2.594 kandídatar. Þeirra á meðal eru fyrstu nemendurnir sem ljúka meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu og þroskaþjálfafræði til starfsréttinda.

Sem endranær mun rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, flytja ávarp við athafnirnar.

Þá munu þær Sara Þöll Finnbogadóttir, sem útskrifast með BA-gráðu í stjórnmálafræði, og Ingunn Rós Kristjánsdóttir, sem brautskráist með BA-próf í sálfræði, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata á athöfnunum tveimur.

Þær Sigga, Beta og Elín Eyþórsdætur, Eurovisonfarar, munu stíga á svið og skemmta gestum á athöfnunum tveimur. Gestir munu eflaust kunna vel að meta skemmtiatriði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.