Klinkið

Setti Seðlabankinn nýjar reglur til höfuðs indó?

Ritstjórn Innherja skrifar
Samkvæmt reglunum þurfa innlánastofnanir að lána út 60 prósent af innlánum viðskiptavina. 
Samkvæmt reglunum þurfa innlánastofnanir að lána út 60 prósent af innlánum viðskiptavina.  Vísir/Vilhelm

Sparisjóðurinn indó hefur vakið þónokkra athygli upp á síðkastið og ekki síst þau metnaðarfullu áform um að bjóða mun betri kjör á veltureikningum einstaklinga heldur en rótgrónu viðskiptabankarnir bjóða í dag.

Í viðtali sem Innherji birti um helgina fóru stofnendurnir, Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, yfir ferlið á bak við stofnun sparisjóðsins sem hefur verið einkar krefjandi. Þegar þeir voru spurðir um regluverkið sögðu þeir að allar reglur og kröfur miðist við stóru bankana.

„Þegar kemur að nýsköpunarumhverfinu á fjármálamarkaði skýtur óneitanlega skökku við að það taki hóp öflugra sérfræðinga fjögur ár að komast á þann stað að geta hreinlega hafið starfsemi. Það hlýtur að vera vilji til þess hjá stjórnmálafólki að bæta nýsköpunarumhverfið á fjármálamarkaði og lækka aðgangshindranir, enda mikið hagsmunamál fyrir neytendur,“ sagði Haukur.

Greina mátti sama tón í viðtali við Harald Þorleifsson, stofnenda Ueno og einn stærsta hluthafa indó, í viðtali sem birtist viku fyrr.

„Eftir að hafa unnið með indó er það sem kemur mest á óvart að opinbera kerfið er óvinveitt svona fyrirtækjum. Það eru alls konar reglur og kvaðir sem miðast við banka sem velta tugum milljarða en eru settar á lítið nýsköpunarfyrirtæki. Ég vona að Seðlabankinn og ráðuneytin endurskoði regluverkið þannig að það ýti undir nýsköpun frekar en að hamla henni,“ sagði Haraldur.

Eins og staðan er í dag er mikið af regluverki fjármálakerfisins innleitt í gegnum EES-samninginn, og íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa lítið um það að segja. Hugsanlega er að Haraldur og stofnendur indó hafi meðal annars verið að vísa til reglna sem Seðlabanki Íslands breytti í byrjun þessa árs og vöktu litla athygli.

Nýju reglurnar skylda fjármálastofnanir til að lána út minnst 60 prósent af innlánum viðskiptavina sinna og þannig er þeim meinað að hafa hærri fjárhæð en sem nemur 40 prósentum af innlánum viðskiptavina á reikningi hjá Seðlabankanum. Umræddar breytingarnar fólu í sér „hert skilyrði um þátttöku í miðlun peningastefnu,“ að sögn Seðlabankans, sem er skiljanlegt sjónarmið.

En tímasetningin er áhugaverð. Reglunum var breytt mánuði áður en indó fékk útgefið starfsleyfi sem sparisjóður og ekki verður betur séð en að þær beinist að viðskiptalíkani þessa tiltekna fyrirtækis. Áður hafði komið fram í máli stofnenda indó að sparisjóðurinn hyggðist, að minnsta kosti til að byrja með, setja öll innlán viðskiptavina sinna inn á viðskiptareikning Seðlabankans.

Reglurnar, eins og þeir eru túlkaðar í dag, gera það að verkum að indó þarf að taka meiri áhættu með innlánin en stofnendurnir höfðu lagt upp með. Þær skipta litlu máli fyrir stóru viðskiptabankana, sem búa yfir fjölbreytileika í fjármögnun og eignum, og virðast gera ráð fyrir að nýir bankar komi fullskapaðir inn á markaðinn.  Aftur á móti koma þær sér illa fyrir lítil nýsköpunarfyrirtæki sem vilja koma inn á markaðinn með einfalt vöruúrval og á þennan hátt skapa reglurnar aðra hindrun að bankamarkaðinum. Ekki var skortur á þeim fyrir.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×