Viðskipti erlent

Musk og fyrir­tækjum hans stefnt vegna pýramída­svindls með raf­mynt

Kjartan Kjartansson skrifar
Elon Musk er sakaður um að hafa staðið fyrir pýramídasvindli til að hagnast á rafmyntinni Dogecoin.
Elon Musk er sakaður um að hafa staðið fyrir pýramídasvindli til að hagnast á rafmyntinni Dogecoin. Samsett/EPA/Getty

Fjárfestir í rafmyntinni Dogecoin stefndi Elon Musk, rafbílaframleiðandanum Tesla og og geimferðafyrirtækinu SpaceX vegna meints pýramídasvindls með myntina í dag. Hann krefst 258 milljarða króna frá Musk og fyrirtækjum hans.

Grundvöllur málsóknarinnar er að Musk og fyrirtækin tvö hafi framið fjársvik þegar þau hömpuðu Dogecoin opinberlega þannig að verðið rauk upp en létu það svo hrynja skömmu síðar, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Stefnandinn, Keith Johnson, sakar Musk og fyrirtækin sem hann stýrir um að hafa vitað fullvel að Dogecoin væri verðlaust árið 2019. Engu að síður hafi hann talað upp rafmyntina til þess að hagnast á henni.

„Musk notfærði sér stall sinn sem ríkasti maður í heimi til að stýra og eiga við Dogecoin pýramídasvindl í hagnaðarskyni, fyrir athygli og sér til skemmtunar,“ segir í stefnunni.

Johnson krefst skaðabóta upp á þrefalda þá 86 milljarða dollara sem Dogecoin hefur rýrnað í verðri frá því í maí 2021. Hann vill einnig að Musk og fyrirtækjum hans verði bannað að auglýsa Dogecoin og að dómari lýsi viðskipti með rafmyntina fjárhættuspil.

Ekki liggur fyrir hvað sannanir Johnson og lögmenn hans ætla að leggja fram um að Musk hafi vitað að Dogecoin væri einskis virði og að hann hafi rekið pýramídasvindl. Í stefnunni er hins vegar vísað í ummæli manna eins og Warren Buffet og Bill Gates sem hafa lýst efasemdum um ágæti rafmynta.

Tesla lýsti því yfir að fyrirtækið hefði keypt Dogecoin fyrir einn og hálfan milljarða dollara í febrúar í fyrra. Fyrirtækið tók rafmyntina stuttlega gilda sem greiðslu fyrir rafbíla.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.