Innherji

Stofn­endur indó vilja bæta banka­kjör heimila um tíu milljarða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason.
Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason. VÍSIR/VILHELM

Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, stofnendur indó, fengu að heyra fjölmargar ástæður fyrir því hvers vegna ómögulegt væri að stofna nýjan banka. Fjórum árum síðar er sparisjóðurinn kominn með starfsleyfi, aðgang að greiðslukerfi bankanna og stefnir að því að bjóða alla velkomna í viðskipti á seinni hluta þessa árs. Þeir hafa einsett sér að umbylta verðlagningu á bankamarkaðinum og telja að aukin samkeppni geti skilað heimilum landsins allt að 10 milljarða króna ábata.

Haukur og Tryggvi Björn hafa starfað á fjármálamarkaði um langt skeið. Haukur starfaði í tíu ár hjá Íslandsbanka þar sem hann var meðal annars forstöðumaður framtaksfjárfestinga og forstöðumaður greiningar og stefnumótunar á viðskiptabankasviði.

Tryggvi Björn var framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka á árunum 2011 til 2017 en fyrir það starfaði hann hjá Barclays Capital í London við að byggja upp skuldabréfafjárfestingasvið breska bankans.

„Eins og hjá svo mörgum er mín saga þannig að ég sogast inn í bankakerfið eftir útskrift. En eftir að hafa starfað hjá bönkum, bæði innanlands og erlendis, varð ég afhuga þessu módeli. Þetta módel er sjálfmiðað og gagnast viðskiptavinum ekkert sérstaklega vel. Ég ætlaði mér engan veginn að vinna aftur í banka, hvað þá að stofna banka,“ segir Tryggvi.

Alltaf þegar maður notar kortið sitt þá er eins og einhver banki í öxlina á manni og heimti að fá borgað. Það meikar ekki sens.

Haukur og Tryggvi eru gamlir skólafélagar úr barnaskóla, og settust niður á kaffihúsi árið 2018, þá 45 ára gamlir, og ræddu um hvað þeir vildu verða þegar þeir yrðu fullorðnir. „Ég hætti í Íslandsbanka árið 2014 því mér fannst útséð um að bankarnir myndu eiga frumkvæði að því að breyta nálgun sinni gagnvart neytendum,“ segir Haukur.

„Ég hafði séð nýbanka spretta upp í Evrópu og hugsaði með mér hvers vegna þetta væri ekki að gerast hér á landi. Það hlyti að gerast á einhverjum tímapunkti og bankarnir hlytu að þurfa að bregðast við. Þá vaknaði þessi hugmynd: Af hverju kýlum við ekki bara á þetta?“

„Við gengum dálítið borubrattir út af kaffihúsinu, báðir með mikla reynslu úr bankakerfinu, og ætluðum að fá fjárfesta í lið með okkur,“ bætir Tryggvi.

Tryggvi og Haukur eru gamlir skólafélagar úr barnaskóla.VÍSIR/VILHELM

Það sem hvatti þá áfram voru niðurstöður könnunar sem voru birtar í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem var gefin út um svipað leyti. Í könnuninni var spurt hver væri helsta ástæða þess að fólk bæri lítið traust til bankakerfisins á Íslandi og af svörunum var ljóst að verulegur hluti vantrausts á bankakerfið stafaði af því að almenningur upplifði bankakerfið dýrt. Betri kjör og meira gegnsæi voru atriði sem margir nefndu sem leið til að auka traust á bankakerfinu.

„Þetta er ástæðan fyrir því að fólk hefur unnið hörðum höndum að þessu í fjögur ár; til að hafa jákvæð áhrif fyrir heimili og fyrirtæki. Þó svo að bankakerfið hafi á vissan hátt breyst undanfarin ár, eru þær breytingar ekki í samræmi við það sem fólk kallaði eftir árið 2018,“ segir Haukur.

Gekk erfiðlega að sannfæra fjárfesta í byrjun

En það var hægara sagt en gert að finna fjárfesta. Haukur og Tryggvi komu alls staðar að lokuðum dyrum, þeir fengu fleiri en fjörutíu „nei“ og nærri tuttugu ástæður fyrir því hvers vegna þetta myndi aldrei ganga upp.

Hverjar voru ástæðurnar?

„Menn sögðu meðal annars að Fjármálaeftirlitið myndi aldrei leyfa nýjum banka að fara af stað og að við hefðum ekki eina einustu hugmynd um hversu dýrt væri að búa til bankaapp. Það átti að kosta einhverja milljarða. Síðan var bent á þetta væri alltof flókið ferli enda væri hver banki með um 900 starfsmenn þrátt fyrir að hafa skorið niður í starfseminni. Og við fengum einnig að heyra að fólk væri líklegra til að skilja við makann sinn heldur en að skipta um banka. Sem er algjört kjaftæði,“ segir Tryggvi.

Fjárfestingafélagið Gnitanes, sem áður hét Eldhrímnir og er í eigu Ingimundar Sveinssonar arkitekts og fjölskyldu, tók af skarið og leiddi fyrstu fjármögnunarumferð indó sem hljóp á nokkrum tugum milljóna króna. Skömmu áður hafði fjárfestingafélagið leyst út gífurlegan hagnað þegar skyrgerðin Siggi‘s var seld til franska mjólkurrisans Lactalis.

Eitt af stóru markmiðum okkar var að sýna fram á að það er hægt að stofna banka og vonandi koma fleiri í kjölfarið

Eftir að hafa fengið starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands og aðild að greiðslukerfi banka á Íslandi er indó komið langt á veg. Starfsmenn eru nú þegar byrjaðir að fá laun inn reikning hjá sparisjóðnum og í júní verður 50 viðskiptavinum veittur aðgangur að þjónustu indó. Þeim verður síðan fjölgað í skrefum þar til sparisjóðurinn verður tilbúinn að opna dyrnar fyrir öllum landsmönnum á seinni hluta þessa árs.

Hver hefur verið helsta áskorunin í uppbyggingu indó?

„Fyrst og fremst tækni. Við höfðum ekki hundsvit á tækninni en það sem gerist þegar við byrjum að tala við Reiknistofu bankanna og Fjármálaeftirlitið er að það fréttist að þarna séu tveir rugludallar að fara að stofna banka. Og skyndilega bankar besta tæknifólk á Íslandi upp á hjá okkur og spyr hvort það megi taka þátt. Ef það hefði ekki gerst hefði indó aldrei orðið að veruleika,“ segir Tryggvi.

„Við vanmátum líka tímalengdina og flækjustigið gagnvart Fjármálaeftirlitinu,“ bætir Haukur við. „Tímaramminn sem við sáum fyrir okkur passaði ekki endilega við tímarammann hjá FME . Þau eru vandvirk og gefa, sem betur fer, engan afslátt. Og það kom mér skemmtilega á óvart hversu mikið þau lögðu sig fram við að skilja það sem við vorum að gera. Þau komu með uppbyggilega gagnrýni. Þessi spádómur um að eftirlitið myndi aldrei leyfa nýjan banka var bara tóm vitleysa þegar upp var staðið.“

Í byrjun árs 2020, þegar Haukur og Tryggvi voru byrjaðir að undirbúa fjármögnun á umsókn til fjármálaeftirlitsins, setti tilkoma Covid-19 strik í reikninginn. Fjármögnun upp á 600 milljónir króna lauk því ekki fyrr en haustið 2021.

Eftir fjármögnunina er Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, á meðal stærstu hluthafa nýbankans en á hluthafalistanum má einnig finna félag á á vegum starfsmanna Novator, sem hefur fjárfest í fjölmörgum nýsköpunarfyrirtækjum um allan heim, og Info Capital, sem er í eigu Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo.

„Þetta er allt fólk sem hefur byggt upp fyrirtæki og veit því um hvað slík vegferð snýst. Ég held að það sé erfitt að finna álíka fjárfestahóp í öðrum verkefnum sem eru á því stigi sem við erum,“ segir Haukur.

Fjögurra ára vegferð varpar ljósi á galla regluverksins

Spurðir um regluverkið segja Haukur og Tryggvi að allar reglur og kröfur miðist við stóru bankana. Forsenda fyrir því að hægt sé að veita þeim öfluga samkeppni sé að regluverkið taki mið af ólíku umfangi fjártæknifyrirtækja.

„Þegar kemur að nýsköpunarumhverfinu á fjármálamarkaði skýtur óneitanlega skökku við að það taki hóp öflugra sérfræðinga fjögur ár að komast á þann stað að geta hreinlega hafið starfsemi. Það hlýtur að vera vilji til þess hjá stjórnmálafólki að bæta nýsköpunarumhverfið á fjármálamarkaði og lækka aðgangshindranir, enda mikið hagsmunamál fyrir neytendur. Eitt af stóru markmiðum okkar var að sýna fram á að það er hægt að stofna banka og vonandi koma fleiri í kjölfarið,“ segir Haukur.

Umbylta verðlagningu í kraft einfaldleikans

Í fyrstu tekur sparisjóðurinn bara við innlánum frá einstaklingum en síðar verður vöruúrvalið aukið og smærri fyrirtækjum boðið að koma í viðskipti. Tekjumódelið byggist að hluta til á vaxtamun en auk þess fær indó tekjur í gegnum VISA sem eru beintengdar við kortaveltu.

Haukur og Tryggvi segjast ætla að bjóða betri kjör en stóru bankarnir, bæði hvað varðar innlánsvexti og færslugjöld fyrir kortanotkun, og þeim reiknast til að ábatinn fyrir neytendur geti orðið gífurlegur.

„Alltaf þegar maður notar kortið sitt þá er eins og einhver banki í öxlina á manni og heimti að fá borgað. Það meikar ekki sens. Ef okkur er hleypt af stað þá erum við að fara að leiða algjöra breytingu á því hvernig verðlagning er búin að vera launareikningum og greiðslukortum á íslenskum bankamarkaði,“ segir Tryggvi.

„Ef við skoðum upplýsingar frá Seðlabankanum um kortaveltu og innlán, og ef við gerum ráð fyrir að hinir bankarnir bjóði samskonar kjör og við munum bjóða til að aðlaga sig að okkar verðlagningu, þá værum við að skilja eftir 10 milljarða í vösum heimilanna. Þetta verkefni sem byrjaði í bílskúr og Þjóðarbókhlöðunni getur því haft gífurleg áhrif fyrir heimilin í landinu.“

Hvernig náið þið að bjóða betri kjör en hinir bankarnir?

„Við getum boðið betri kjör í krafti einfaldleikans. Við erum ekki að byggja upp gríðarlegan kostnaðarstrúktúr heldur vitum við nákvæmlega hvað við viljum gera og hvað það kostar,“ segir Haukur.

Nýleg könnun sem indó stóð fyrir sýnir að eftirspurn sé eftir nýjum valkosti á bankamarkaði en þar sögðu 37 prósent aðspurðra að þeir væru til í að skipta yfir nýs aðila á markaði. Sumir þeirra voru til að koma í viðskipti við fyrsta tækifæri en aðrir þegar reynsla væri komin á reksturinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×