Viðskipti innlent

Kaup­máttur jókst þrátt fyrir mikla verð­bólgu

Eiður Þór Árnason skrifar
Heilt yfir virðist hækkun ráðstöfunartekna hafa haldið í við verðbólgu á fyrstu mánuðum ársins. 
Heilt yfir virðist hækkun ráðstöfunartekna hafa haldið í við verðbólgu á fyrstu mánuðum ársins.  Vísir/Friðrik

Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimila hafi aukist um 9,64% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þegar tekið er tillit verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist um 1,23%.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar en vísitala neysluverðs jókst um 6,18% á sama tímabili. Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,1 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hafi aukist um 7,49% frá sama tíma í fyrra.

Samkvæmt Hagstofunni jukust heildartekjur heimilanna um 12,6% milli fyrsta ársfjórðungs 2021 og 2022. Launatekjur jukust um 15,8% en áætlað er að eignatekjur hafi aukist um 6,7% og að vaxtatekjur aukist um 18,9% á tímabilinu.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur drógust saman um 2,4% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við fyrsta ársfjórðung seinasta árs.

Hagstofan áætlar jafnframt að heildargjöld heimilanna hafi aukist um 16,2% á fyrsta ársfjórðungi 2022 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur jukust um 20,4% og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 17% á tímabilinu.

Eignagjöld jukust um 14,6% á fyrsta ársfjórðungi 2022 samanborið við sama tímabil í fyrra og vaxtagjöld þar af um 15% sem einkum skýrist af auknum útlánum lánastofnana til heimila vegna fasteignakaupa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×