Viðskipti innlent

Hækka spá sína og gera ráð fyrir 8,7 prósent verð­bólgu í júní

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsbankinn hefur hækkað verðbólguspá sína. 
Landsbankinn hefur hækkað verðbólguspá sína.  Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að ársverðbólga mælist 8,7% í júní en hún var 7,6% í maí. Um er að ræða talsvert meiri hækkun en bankinn hafði áður spáð og skýrist það fyrst og fremst af því að verð á eldsneyti hefur hækkað mun meira en hagfræðideildin átti von á.

Verðbólguspáin er sömuleiðis nokkuð svartari en hjá Greiningu Íslandsbanka sem gerir ráð fyrir því að ársverðbólga muni mælast 8,4% í júnímánuði.

Því er spáð í nýrri Hagsjá Landsbankans að matarverð, reiknuð húsaleiga, eldsneyti og flugfargjöld muni skýra 80% af hækkun verðlags milli mánaða. Í spá sem bankinn birti var í maí var gert ráð fyrir 0,8% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða en hann spáir nú 1,3% hækkun milli maí og júní. 

Hagfræðideild Landsbankans á von á því að dæluverð eldsneytis hækki um 8% milli mánaða vegna hækkana á heimsmarkaðsverði á olíu en fram kemur í Hagsjánni að bensínverð hafi einungis tvisvar hækkað meira en 8% frá því að mælingar hófust árið 1997. Það var í mars síðastliðnum og í apríl 2009 þegar bensínverð hækkaði um 8,2%. 

Hagfræðideild Landsbankans spáir nú 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs í júlí, 0,7% hækkun í ágúst og 0,1% hækkun í september. Gangi þetta eftir mun verðbólgan fara hæst í 9,1% í ágúst áður en hún lækkar í 8,7% í september. Hagstofan birtir nýjar verðbólgutölur þann 29. júní.


Tengdar fréttir

Spá því að verðbólga fari úr 7,6 í 8,4 prósent

Greining Íslandsbanka spáir 8,4% verðbólgu í júnímánuði en tólf mánaða verðbólga mældist 7,6% í maí og hefur ekki mælst svo mikil frá því í mars 2010. Gangi spá bankans eftir væri um að ræða 1,0% hækkun á vísitölu neysluverðs frá fyrri mánuði.

Verð­bólga í 7,6 prósent og ekki mælst meiri í tólf ár

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,77% milli mánaða og stendur nú í 539,5. Matarverð, húsnæðiskostnaður og bensín er á meðal þess sem hefur hækkað umtalsvert frá síðasta mánuði og orsakar hækkun vísitölu neysluverðs, en verðbólga hefur ekki mælst meiri í tólf ár.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.